Home Fréttir Í fréttum Þjóðveldisbærinn Stöng í Þjórársdal vígður eftir umfangsmiklar endurbætur

Þjóðveldisbærinn Stöng í Þjórársdal vígður eftir umfangsmiklar endurbætur

40
0
Mynd: Claudio Parada Nunes

Endurgerð yfirbyggingar á friðlýstum minjum við Stöng í Þjórsárdal er lokið eftir rúmt ár af umfangsmiklum framkvæmdum. Þjóðveldisbærinn, staðsettur við Þjórsárdalsveg í Gjáskógum, er eftirlíking af bænum Stöng sem varð undir vikri í Heklugosinu árið 1104.

<>

Markmið verkefnisins er að varðveita þessar mikilvægu minjar með því að byggja nýja yfirbyggingu sem ver mannvirkið fyrir veðri og vindum.

Vígsla fór fram kl. 13:00 þann 1. Október 2024, að viðstöddum Rúnari Leifssyn, forstöðumanni Minjastofnunar Íslands, Magnúsi Guðmundssyni skrifstofustjóra í umhverfis- orku- og loftlagsráðuneyti, Karli Kvaran arkitekt og Ugga Ævarssyni minjaverði Suðurlands, ásamt fleiri góðum gestum.

Framkvæmdin hófst í júlí 2023 og lauk í september 2024. Hún hefur falið í sér umfangsmikla jarðvinnu, endurnýjun burðarvirkis, uppsetningu nýrra veggja og palla ásamt lagnavinnu til að bæta frárennsli.

Verktakinn Langeldur ehf. sá um framkvæmdina ásamt ráðgjöf frá SP(R)INT Studio og VSB verkfræðistofu. Minjastofnun Íslands er verkkaupi en Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir hefur haft umsjón með framkvæmdinni.

Auk yfirbyggingar var reistur útsýnispallur við vesturgafl hússins sem gerir gestum kleift að njóta óviðjafnanlegs útsýnis yfir Þjórsárdal.

Á meðan á verkinu stóð fannst forn bygging við austurenda skálans sem liggur undir gjóskulaginu frá Heklugosinu. Þessi fornleifafundur jók við umfang verksins, en hann veitir einstaka innsýn í byggingarhætti Íslendinga á þjóðveldisöld.

Framkvæmdasýslan leggur ríka áherslu á að varðveita menningarminjar á viðeigandi hátt og tryggja að mannvirki eins og Þjóðveldisbærinn standi áfram sem lifandi minjar um sögu þjóðarinnar.

Heimild: Framkvæmdasýslan – Ríkiseignir