Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Framkvæmdir á nýrri fjölnota farþegamiðstöð á góðri siglingu

Framkvæmdir á nýrri fjölnota farþegamiðstöð á góðri siglingu

86
0

Faxaflóahafnir standa að framkvæmdum á nýrri 5.500 m2 fjölnota farþegamiðstöð á Skarfabakka í Sundahöfn. Miðstöðin mun gerbylta allri aðstöðu og þjónustu við farþega skemmtiferðaskipa sem koma á Skarfabakka.

<>

Henni er ætlað að þjóna farþegum skemmtiferðaskipa hvort sem þeir hefja eða ljúka sinni ferð á Íslandi sem og þeim sem eingöngu eru í viðkomu.

Yfir vetrarmánuðina verður farþegamiðstöðin leigð út til ráðstefnu og viðburðarhalds, þar sem einstök staðsetning við sjóinn, sundin og rými fyrir allt að 940 manns í borðhaldi – mun enn frekar styðja við Reykjavík sem ráðstefnuborg.

Farþegamiðstöðin tilbúin að taka á móti farþegum vorið 2026
Framkvæmdir á Skarfabakka hafa staðið yfir í allt sumar með góðum árangri, þrátt fyrir almennt sumarleysi á höfuðborgarsvæðinu.

Nú þegar er búið að steypa 2/3 hluta botnplötu í aðalsalnum og næstu vikur verður steypuvinna á botnplötum kláruð. Stefnt er að byrja á uppsteypu veggja á 1. hæð í lok september og ljúka þeim verkþætti í desember á þessu ári.

Í lok desember verður síðan byrjað á uppsteypu veggja annarrar hæðar sem ætti að vera lokið í lok febrúar 2025. Verkið er því á góðri siglingu og ekkert því til fyrirstöðu að farþegamiðstöðin verði klár fyrir fyrstu farþegaskipti 2026 sem verða 4. maí það ár.

„Það er gleðilegt að verkið skuli ganga svona vel þar sem mikil eftirvænting er eftir glæsilegri farþegamiðstöð meðal skipafélagana, þar sem hún mun stórbæta öryggi og þjónustustig við farþega sem fara um Skarfabakka ár hvert.

Í heild eru það um 250 þúsund farþegar árlega þannig að það er talsverður fjöldi. Hin glæsilega bygging við sundið mun ekki bara þjónusta farþega skemmtiferðaskipa, heldur verður hún leigð út til viðburða og ráðstefnuhalds yfir vetrarmánuðina.

Hönnun og stærð byggingar er af þeirri stærðargráðu að rúmlega 900 manns geta setið til borðs í einum og sama salnum, nokkuð sem hefur ekki verið á hverju strái hingað til“, segir Sigurður Jökull Ólafsson markaðsstjóri Faxaflóahafna.

Heimild: Faxafloahafnir.is