Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Gangur í húsbyggingum á Reyðarfirði

Gangur í húsbyggingum á Reyðarfirði

52
0
Mynd: Austurfrett.is

Þrjú fyrirtæki standa fyrir byggingum íbúðarhúsnæðis á Reyðarfirði þessa dagana. Hratt og vel gekk að reisa 11 íbúða hús sem Launafl byggir á Breiðamel. Húsbyggingar eru víðar í gangi um Fjarðabyggð.

<>

„Það hefur verið talað um að það vantaði íbúðahúsnæði þannig við tókum af skarði. Við höfum fundið fyrir ánægju með bygginguna og fengið töluvert af fyrirspurnum um íbúðirnar þótt það sé ekkert frágengið um kaup,“ segir Magnús Hilmar Helgason, framkvæmdastjóri Launafls.

Um miðjan júlí var tekin fyrsta skóflustungan að húsinu sem vonir standa til að verði tilbúið fyrir lok árs 2025. Húsið var reist fyrr í þessum mánuði á tæpum tveimur vikum.

Það er byggt úr krosslímdum timbureiningum, eða CLT einingum, sem hafa hlotið vottun hjá Svaninum, norræna umhverfismerkinu. Þetta mun vera fyrsta húsið á Reyðarfirði sem byggt er með slíkri vottun en einnig er slíkt hús að rísa á Eskifirði.

Í húsinu verða alls 11 íbúðir, sjö sem eru 80 fermetrar og fjórar um 90 fermetrar. Þær eiga því að fullnægja skilyrðum þannig hægt sé að sækja um hlutdeildarlán. Magnús segir Launafl tilbúið að skoða frekari uppbyggingu íbúðarhúsnæðis ef vel tekst til með þetta.

Fleiri fjölbýlishús á Reyðarfirði

Hús eru víðar í byggingu á Reyðarfirði þessa dagana. Annað fyrirtæki, Óseyri 5, byggir tveggja hæða fjölbýlishús að samnefnda lóð á Reyðarfirði sem er við hlið verslunar Launafls.

Samkvæmt fasteignaauglýsingu er þar um að ræða stúdíóíbúðir, rúmlega 36 fermetrar auk 6 fermetra geymslu sem einnig uppfylla skilyrði hlutdeildarlána.

Um miðjan júní var tekin fyrsta skóflustungan að kjarna með sex íbúðum sem sérstaklega eru ætlaðar fólki með fötlun við hlið heilsugæslunnar við Búðareyri. Fyrir tveimur vikum var byrjað að steypa fyrir grunni hússins og byrjað að setja upp veggi. Verkið er á ætlun og stefnt á að það opni um mitt næsta ár.

Í yfirliti sem Austurfrétt fékk afhent frá Fjarðabyggð, sem hluta af svari við fyrirspurn um húsbyggingar á Reyðarfirði, kemur fram að auki séu sex einbýli í byggingu og nýlega hafi farið fram lokaúttekt á tveimur þriggja íbúða raðhúsum við Búðarmel. Þá sé verið gera upp gömul hús í miðbænum, meðal annars hið sögufræga Hermes.

Íbúðir rísa víðar í Fjarðabyggð

Á Breiðdalsvík er verið að byggja einbýlishús auk þess sem parhús þar hefur nýlega farið í gegnum lokaúttekt. Tvö einbýlishús hafa verið byggð á Fáskrúðsfirði frá árinu 2021 og eitt parhús. Þar er veirð að byggja fimm íbúða raðhús og eitt parhús.

Á sama tíma hafa verið byggð þrjú parhús og átta íbúða raðhús á Eskifirði. Þar er verið að byggja einbýlishús, eitt iðnaðarhúsnæði er í byggingu og leikskólinn í stækkun.

Mynd: Austurfrett.is

Í Neskaupstað hafa frá 2021 verið byggð þrjú einbýlishús, tvö átta íbúða fjölbýlishús, fjögurra íbúða raðhús, tvö tveggja íbúða sambýlishús. Þar er verið að byggja ellefu íbúða fjölbýlishús, eitt parhús og eitt einbýlishús. Þar er einnig verið að byggja frístundahús.

Loks má nefna að á Mjóafirði er verið að byggja við einbýlishús og verið að breyta Stefánsbúð í frístundahúsnæði.

Heimild: Austurfrett.is