Lögreglan á Suðurnesjum er enn með til rannsóknar vinnuslys sem varð þegar karlmaður á jarðvegsþjöppu féll ofan í sprungu í Grindavík í byrjun árs.
Maðurinn, verktaki sem vann við sprungufyllingu í Grindavík, var að vinna við jarðvegsþjöppun við heimahús í bænum þegar hann féll ofan í sprunguna.
Stórkostlegt gáleysi og ekki svarað kostnaði
Fram kemur í ítarlegri umfjöllun Heimildarinnar að tilgangsleysi og gáleysi sé lýst í rannsókn slyssins.
Kemur þar meðal annars fram í máli fyrrverandi kollega mannsins að þeir aðilar sem stýrðu verkefninu að fylla í sprungur á svæðinu hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi.
Segir einnig að engar kröfur hafi verið gerðar um áhættumat á verkstaðnum og legið hafi fyrir að það myndi ekki svara kostnaði að fara í framkvæmdir við að bjarga húsinu.
Rannsaka hafi þurft málið frekar
Fram kemur í grein Heimildarinnar að rannsókn málsins hafi lokið fyrir nokkru en síðar verið ákveðið að málið þyrfti ítarlegri rannsókn.
Í samtali við mbl.is segir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri lögreglunnar á Suðurnesjum, að um sé að ræða áframhaldandi rannsókn.
Úlfar segir að rannsókninni hafi aldrei verið formlega lokið en að athuguðu máli hafi þurft að rannsaka málið frekar.
„Það er bara háttur svona rannsókna. Mál kemur úr rannsóknardeild og það er lesið yfir af lögfræðisviði embættisins og eftir yfirferð lögfræðisviðs þá var ákveðið að rannsaka málið betur.“
Sitt lítið af hverju
Aðspurður segist hann ekki geta sagt til um hvaða vinkla málsins sé verið að rannsaka núna en það sé þó sitt lítið af hverju. Málið sé þá enn þá rannsakað sem vinnuslys.
„Staðan er bara þessi að þetta er í ákveðnum farvegi. Svona rannsóknir taka mislangan tíma.“
Heimild: Mbl.is