Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir vegna samgöngusáttmála taki 22 ár í stað 15

Framkvæmdir vegna samgöngusáttmála taki 22 ár í stað 15

32
0
RÚV – Alexander Kristjánsson

Endurskoðaður samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var kynntur þingflokkum stjórnarflokkanna í gær. Framkvæmdatíminn verður lengdur um sjö ár, þannig að þær standa yfir í 22 ár í stað 15. Kostnaðurinn verður 310 milljarðar króna.

<>

Endurskoðaður samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins var kynntur þingflokkum stjórnarflokkanna í gær og verður kynntur fyrir sveitarstjórnum á höfuðborgarsvæðinu í dag. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Samgöngusáttmálinn hefur verið í endurskoðun frá því í fyrra. Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, sagði í byrjun september að áætlanir vegna sáttmálans hefðu farið úr 160 milljörðum króna í allt að 300 milljarða. Kostnaður hefði því aukist um rétt tæplega 90 prósent.

Vilhjálmur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og annar varaformaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, segir að framkvæmdatíminn hafi lengst úr 15 árum í 22, og kostnaðurinn sé nú áætlaður 310 milljarðar króna. „Það er búið að staðfesta þennan aukna kostnað á verkefninu og að það taki lengri tíma,“ segir Vilhjálmur.

Vilhjálmur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins.
RÚV

Mikilvægt að tryggja samgöngubætur á framkvæmdatímanum

„Það sem ég kalla enn þá eftir, er að við förum að sjá ávinning sem við erum að sækjast eftir af sáttmálanum fyrr, fyrir notendur á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Vilhjálmur. Hann segist ekki hafa fengið nákvæma kynningu á framkvæmdaáætlun, en miðað við þær upplýsingar sem þingflokkarnir hafi fengið í gær, virðist óljóst með hvaða hætti samgöngur á framkvæmdatímanum verði bættar.

„Það þarf að bæta Strætó strax, og mér sýnist það vera eitt af tillögunum, en hvernig er hægt að nýta núverandi umferðarmannvirki betur og gera einhvers konar umferðaflæðibætandi aðgerðir á þeim, ég hef ekki séð að það sé verið að fara í einhverjar þannig stærri framkvæmdir á framkvæmdatímanum á meðan að á þeim stendur.“

Skortir gagnsæi og samráð

Vilhjálmur gagnrýnir skort á gagnsæi og samstarfi við stefnumótun sáttmálans. „Svona stórt verkefni eins og samgöngusáttmálinn er, þarf að vera unnið á miklu gagnsærri hátt, í miklu meiri samskiptum við bæði Alþingi og sveitarstjórnir í hverju sveitarfélagi,“ segir Vilhjálmur.

„Að það sé farið eftir stefnumörkum Alþingis og fjárveitingavaldsins.“ Þannig sé best hægt að tryggja að verið sé að nýta fjármuni á sem bestan og hagkvæmastan hátt.

En liggur fyrir hvernig kostnaðurinn skiptist? „Ég er ekki búinn að sjá heildarvinnuna, en ég held að það liggi ekki fyrir í öllum atriðum, nei.“

Heimild: Ruv.is