Breytingarnar sem gerðar voru á sorpflokkun hafa heldur betur skilað sér í verkefnum fyrir vinina Gabríel Breka Kristinsson og Loga Stefánsson, eigendur fyrirtækisins Hefestus, en þeir hafa smíðað S fyrir um sjötíu sorptunnur í sumar.
Gabríel segir mikla eftirspurn eftir sorptunnuskýlum og að mikið hafi verið að gera í sumar hjá þeim við gerð þeirra, auk annarra verkefna.
Nóg af verkefnum á sumrin
Gabríel og Logi stofnuðu Hefestus í fyrrasumar, er þeir voru báðir í námi og vantaði sumarvinnu. Þeir eru einu starfsmenn fyrirtækisins en Gabríel segir að þeir fái stundum hjálp frá vinum þegar þörf er á.
„Hugmyndin var upprunalega útismíði, að smíða skjólveggi, palla og svoleiðis á sumrin þar sem við vorum báðir í námi,“ segir Gabríel.
Þeim hafi fundist tilvalið að vinna úti og gera eitthvað skemmtilegt, svo þeir slógu til og stofnuðu fyrirtækið. Strax hafi þeir fengið nóg af verkefnum á borð til sín.
Þeir hafi síðan þá smíðað palla, skjólveggi, hús, borið á palla og nú einnig smíðað sorptunnuskýli.
Hanna og smíða skýlin sjálfir
Auknar kröfur hafi komið um sorptunnufjölda og þeir hafi ákveðið að hanna sorptunnuskýli.
„Í vetur tókum við ákvörðun að búa til hönnun fyrir sorptunnuskýli og höfum notað hana nokkurn veginn síðan fyrir alla einstaklinga, en svo byrjuðu húsfélög líka að heyra í okkur og þá höfum við verið að gera sérhönnuð skýli, eins og fyrir tíu til þrjátíu tunnur,“ segir Gabríel.
Þegar ljósmyndari mbl.is hitti á Gabríel og Loga voru þeir að smíða sorptunnuskýli fyrir húsfélag fjölbýlishúss í Reykjavík, sem tekur þrjátíu tunnur. Gabríel segir það vera stærsta skýlið sem þeir hafi smíðað. Vinnan hafi tekið þá um tvær vikur en þeir smíðuðu líka pall undir skýlið.
Hann segir hefðbundið þriggja tunnu skýli hins vegar taka um einn til einn og hálfan dag í vinnu.
Heimild: Mbl.is