Áætlaður uppfærður kostnaður við byggingu nýrrar brúar yfir Ölfusá er um 8 milljarðar króna, en ekki um 10 milljarðar, eins og fram kom í grein alþingismannanna Jóns Gunnarssonar og Vilhjálms Árnasonar í Morgunblaðinu á föstudag og þeir sögðu dæmi um óráðsíu.
Þetta segir Guðmundur Valur Guðmundsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Vegagerðarinnar, í samtali við Morgunblaðið.
Í greininni kvarta þingmennirnir yfir því að erfiðlega hafi gengið að fá upplýsingar hjá Vegagerðinni um áætlaðan uppfærðan kostnað við brúarsmíðina og kannast Guðmundur Valur við að staðið hafi upp á Vegagerðina í því efni.
Hann segir að síðar í þessum mánuði komi í ljós hvort samið verði við ÞG verktaka um smíði brúarinnar, en viðræður standa nú yfir og endanlegt tilboð í verkið er væntanlegt.
„Það er verið að velja mannvirki sem er hagkvæmt við þverun Ölfusár og hæfir aðstæðum og það eru ekki sjónarmið um hönnunarbrú sem ráða ferðinni,“ segir hann.
Guðmundur Valur segir að mögulega sé unnt að lækka kostnað um einhverjar prósentur, en ekki sé þar um stórar tölur að ræða.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í gær, laugardag.
Heimild: Mbl.is