Home Fréttir Í fréttum Míla vill leysa málin á Vopnafirði

Míla vill leysa málin á Vopnafirði

55
0
Á Vopnafirði. Mynd úr safni. RÚV RÚV – Rúnar Snær Reynisson Rúnar Snær Reynisson

Deilur um greiðslur fyrir aðgang að lagnarörum Mílu hafa valdið óþarfa raski við lagningu ljósleiðara á Vopnafirði. Framkvæmdastjóri Tengis segir Mílu setja upp óaðgengilegt verð en Míla segir að Fjarskiptastofa hafi aldrei gefið út verðskrá.

<>

Míla hafnar því að hafa svarað beiðnum Tengis um aðgang að lagnarörum á Vopnafirði seint og illa. Ekki sé óeðlilegt að ætla sér tvær vikur í slíkt. Tengir segir slíka bið ómögulega þegar aðeins nokkrar vikur gefist til framkvæmda. Dæmi séu um að frekar borgi sig við að grafa í götur heldur en að borga uppsett verð frá Mílu.

Tengir vill forðast rask og óþarfa kostnað
Framkvæmdastjóri Tengis á Akureyri gagnrýndi Mílu í fréttum RÚV fyrir að vera ósamvinnuþýð á Vopnafirði en þar er Tengir að leggja ljósleiðara heim í hús en Míla hætti við þau áform sín fyrir fjórum árum. Míla á þar grunnlagnir í götum og hefur Tengir við framkvæmdir undanfarin þrjú sumur óskað eftir að fá að aðgang að ákveðnum lögnum til að nýta þær betur, spara kostnað og rask.

Framkvæmdastjóri Tengis, Arna Rut Gunnarsdóttir, segir mörg dæmi um að svör við fyrirspurnum hafi dregist eða Míla sett upp óásættanlegt verð. Míla vilji leigja plássið í göturörunum en Tengir vilji frekar greiða eingreiðslu því leiga geti hækkað. Afleiðingin af þessu sé að götur á Vopnafirði hafi verið grafnar í sundur að óþörfu.

Kvaðir hvíla nú á Tengi en ekki Mílu
Í svörum, Ingu Helgu Halldórudóttur, lögfræðings Mílu, hafnar hún gagnrýni Tengis. Um miðjan maí hafi Fjarskiptastofa fellt niður kvaðir á Mílu um aðgang að rörum og lagnaleiðum víða um land. Á Vopnafirði hvíli nú slík kvöð á Tengi.

Það breytir ekki því að Míla á lagnir undir malbikuðum götum og steyptum gangstéttum sem mögulega er hægt að nýta til að ekki þurfi að grafa í sundur. Inga Helga segir Mílu hafa brugðist fljótt og vel við beiðnum Tengis. Beiðni frá 14. maí hafi verið svarað tveimur dögum síðar og tekið vel í þá umleitan en svarið var ekki endanlegt.

Míla er enn með fyrirkomulagið til skoðunar og segir Inga Helga ekki óeðlilegt að fyrirtækið taki tvær vikur í að meta hlutina. Míla þurfi meðal annars að meta hvort nægt pláss sé í lögnum og hvort fyrirtækið þurfi sjálft á þeim að halda í framtíðinni.

13 milljónir fyrir aðgang að lögn undir gangstétt
Arna Rut, framkvæmdastjóri Tengis, stendur föst á því að Míla hafi undanfarin sumur, á meðan kvöð hvíldi á fyrirtækinu, sett upp verð sem Tengir telji óeðlileg.

Ódýrara hafi verið að grafa og plægja nýtt frekar en að borga fyrir aðgang að rörum Mílu. Beiðni sem Míla segir vera frá 14. maí hafi fyrst verið send í fyrra og Tengir bíði enn eftir verði frá Mílu. Erindið frá 14. maí hafi aðeins snúist um verð.

Hún nefnir dæmi um Lónabraut á Vopnafirði. Þar hefði Tengir þurft að greiða Mílu yfir 13 milljónir án virðisaukaskatts fyrir að nýta rör í gangstétt fyrir 13 hús en þá samt þurft að opna stéttina við hvert hús og leggja inn að húsinu.

Klár dæmi séu um að götur á Vopnafirði hafi verið grafnar í sundur að óþörfu, til að mynda Holtsgata og þá hafi þurft að plægja og grafa frá símstöð við Kolbeinsgötu í gegnum bæinn að brunni austan Lónabrautar.

Fjarskiptastofa hafi ekki klárað kostnaðargreinda verðskrá
Inga Helga, lögfræðingur Mílu, segir að fyrirtækið hafi verið undir miklum skilyrðum vegna stöðu sinnar og Fjarskiptastofa birti kostnaðargreinda verðskrá. Fyrirtækið þurfi að fara eftir henni í viðskiptum. Þar sé miðað við að aðstaða sé leigð.

Þetta hafi hins vegar verið óskýrt með aðgang í rör og sú kostnaðargreining hafi verið í vinnslu hjá Fjarskiptastofu lengi. Nú sé staðan svo breytt því búið sé að aflétta kvöðum á Mílu á mörgum stöðum þar á meðal á Vopnafirði.

Samt sem áður vilji fyrirtækið koma til móts við Tengi sem vilji kaupa aðgang í stað þess að greiða leigu. Hún býst við niðurstöðu í því síðar í vikunni.

Heimild: Ruv.is