Home Featured Fréttir Falla frá 4,7 milljarða fast­eigna­við­skiptum

Falla frá 4,7 milljarða fast­eigna­við­skiptum

134
0
Starfsstöð Hafrannsóknarstofnunar að Fornubúðum 5 Ljósmynd: Aðsend mynd

Hætt hefur verið við 4,7 milljarða króna kaup Kaldalóns á fasteignina að Fornubúðum 5, sem hýsir m.a. starfsemi Hafrannsóknarstofnunar.

<>

Fasteignafélagið Kaldalón og F5 eignarhaldsfélag hafa ákveðið að slíta viðræðum um kaup Kaldalóns á Fornubúðum 5, sem hýsir m.a. aðalskrifstofu Hafrannsóknarstofnunar. Ekki verður því af viðskiptunum, að því er kemur fram í tilkynningu Kaldalóns til Kauphallarinnar.

Kaldalón tilkynnti í lok janúar um að félagið hefði ýmist fengið samþykkt kauptilboð eða undirritað samninga um kaup á sex fasteignum á höfuðborgarsvæðinu sem nema samtals um 17.000 fermetrum.

Stærsta eignin sem Kaldalón samdi um var 10.319 fermetra fasteignin að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði. Kaldalón hafði fengið samþykkt kaupsamning í fasteignina sem fól í sér að kaupverð fasteigna og tengdra lóðaréttinda yrði 4,7 milljarðar króna.

Kauptilboðið er háð hefðbundnum fyrirvörum í fasteignaviðskiptum, svo sem áreiðanleikakönnun og ástandsskoðun, auk annara fyrirvara s.s. gerð nýs leigusamnings um hluta fasteignar.

„Í framhaldi af undirritun kauptilboðs í Fornubúðir 5 hafa aðilar átt í viðræðum um endanlegan kaupsamning og önnur atriði kauptilboðs. Aðilar hafa orðið sammála um halda þeim viðræðum ekki áfram. Því mun ekki verða af fyrrgreindum viðskiptum um fasteignina,“ segir í tilkynningu Kaldalóns.

Eigandi Fornubúða 5 er hið nýstofnaða F5 eignarhaldsfélag, sem er að stærstum hluta í eigu félags Þórðar Kolbeinssonar. F5 keypti fasteignafélagið Fornubúðir fyrir 4,8 milljarða síðasta sumar en helsta eign þess keypta félagsins var húsnæðið að Fornubúðum 5 auk byggingarréttar á sömu lóð.

Önnur viðskipti á áætlun

Kaldalón áréttar að kaupsamningar um aðrar fasteignir sem tilkynnt var um í janúar hafa verið undirritaðir.

Fram kemur að Klettagarðar 11 hafi verið afhentir félaginu og framkvæmdir við Borgarhellu og Lambhagavegi séu á áætlun.

Heimild: VB.is