Starfsmenn ÍAV vinna þessa dagana að því að loka ytra byrðinu á nýrri knatthöll Hauka á Ásvöllum í Hafnarfirði.
Búið er að reisa grind hússins og sperrur og nú er krani notaður þegar bitar í þakið eru lagðir ofan á þær. Þannig er verkið tekið skref fyrir skref og gangurinn er góður.
Samningum samkvæmt á verktaki að ljúka framkvæmdum í lok nóvember næstkomandi svo vænst er að strax á nýju ári megi hefja knattspyrnuæfingar í húsinu, sem er rúmir 10.000 fermetrar að flatarmáli.
Þá er eftir að setja upp áhorfendabekki og ljúka framkvæmdum við þjónustubyggingu sem fylgir knatthöllinni, sem ætti að vera klárt þegar kemur fram á næsta ár.
„Tilkoma knatthallarirnnar verður í raun algjör bylting fyrir allt íþróttastarf Hauka,“ segir Magnús Gunnarsson framkvæmdastjóri Hauka í samtali við Morgunblaðið.
Hægt er að nálgast umfjöllunina í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is