Unnið er nú að því að tengja ný möstur Landsnets í Svartsengislínu. Vinna við aðgerðina hófst klukkan 7 í morgun og vonast er til þess að hún klárist í kvöld. Þetta staðfestir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets í samtali við mbl.is.
Gasmengun flækt málið
„Það er svolítið síðan við reistum þessi möstur en við höfum ekki fundið glufu til að tengja fyrr en núna. Fyrst var það yfirvofandi eldgos, svo eldgos og svo gasmengunin sem gerði okkur erfitt fyrir,“ segir Steinunn.
Vinna við að verja möstrin í línunni hófst fyrir jól. Búið er að reisa þrjú ný möstur og standa þau hærra í landinu en þau gömlu og er eitt þeirra á upphækkaðri eyju. Ef allt gengur að óskum verður línan tekin aftur í rekstur í kvöld.
Svartengislína verði öruggari
Markmið aðgerðarinnar er að verja þessi möstur fyrir hraunrennsli og verður Svartsengislínan því öruggari.
„Þessi nýju möstur sem við erum búin að reisa, þau standa utan hraunrennslisins. Hraunið mun því vonandi ekki renna á þessum stað en ef það gerir það þá eru möstrin hærra í landinu og standa því hugsanlega af sér hraunrennslið.“
Gert er ráð fyrir fyrir rafmagnsleysi í Grindavík í stutta stund við upphaf og lok aðgerðar. Á meðan aðgerðinni stendur mun varaaflsvél verða keyrð í Grindavík.
Heimild: Mbl.is