Í gær var undirritaður samningur um byggingu nýs verknámshús við Menntaskólann á Ísafirði.
Ásmundur Einar Daðason barna- og menntamálaráðherra, Arna Lára Jónsdóttir bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Jón Páll Hreinsson bæjarstjóri Bolungarvíkurkaupstaðar og Bragi Þór Thoroddsen sveitastjóri Súðavíkurhrepps undirrituðu samninginn ásamt Heiðrúnu Tryggvadóttur skólameistara Menntaskólans á Ísafirði.
Reykhólahreppur og Árneshreppur eru einnig aðilar að samningnum en fulltrúar þeirra gátu ekki verið viðstödd undirritunina í dag. Undirritunin fór fram á bókasafni MÍ að viðstöddum nemendum, starfsfólki, skólanefnd, sveitastjórnarfólki og ýmsum aðilum úr atvinnulífinu.
Samningurinn kveður á um skiptingu byggingarkostnaðar milli sveitarfélaganna og ríkisins. Sveitarfélögin munu lögum samkvæmt greiða samtals 40% af byggingarkostnaði en ríkið 60%. Vinna við frummatsskýrslu fyrir bygginguna er langt komin og að henni lokinni mun framkvæmdasýsla ríkisins undirbúa hönnunarvinnu og tilheyrandi útboð.
Með nýju verknámshúsi verður loks komin viðunandi aðstaða fyrir nám í trésmíði, háriðngreinum og rafiðngreinum sem hingað til hafa verið í kjallara heimavistar og á efri hæð núverandi verknámshúss.
Nýja byggingin bætir við allt að 1000 fermetrum í aðstöðu til náms í verkgreinum og mun gera skólanum kleift að taka á móti fleiri nemendum í starfs- og verknám. Nú stundar rúmlega helmingur nemenda í dagskóla nám í verkgreinum við MÍ og hefur hlutfall þeirra farið vaxandi.
,,Menntaskólann á Ísafirði er ekki bara mikilvægur fyrir Ísafjörð sem kaupstað heldur fyrir Vestfirði alla. Það verður spennandi að fylgjast með uppbyggingunni á komandi árum og ég óska Vestfirðingum öllum til hamingju með þennan nýja áfanga.“ Segir Ásmundur Einar Daðason.
Heiðrún Tryggvadóttir skólameistari sagði það mikið fagnaðarefni fyrir skólann að þessi áfangi væri í höfn og gæfi skólanum aukinn byr í seglin fyrir komandi framþróun í skólastarfinu.
Heimild: BB.is