Róbert Wessman sameinar fasteignafélög eftir milljarðasölu til Reita árið 2022.
Fasteignafélagið Eyjólfur ehf., dótturfélag ATP Holding ehf. sem er í 92,5% eigu Róberts Wessman, hefur gengið frá yfirtöku á Lamhagavegi 7 ehf., samkvæmt auglýsingu í lögbirtingablaði.
Félagið Lambhagavegur 7, sem einnig er í eigu Róberts gegnum ATP holding, seldi einu eign sína til Reita Fasteignafélags fyrir 2,2 milljarða árið 2022.
Eina eign félagsins var 4.200 fermetra lagerhúsnæði sem hýsir rekstur líftæknifyrirtækisins Alvotech.
Samkvæmt ársreikningi var söluhagnaður félagsins af fasteigninni 650 milljónir króna. Hagnaður félagsins fyrir árið 2022 nam 550 milljónum króna.
Eini tilgangur félagsins var útleiga á fasteigninni við Lambhagaveg og því hefur verið ákveðið að sameina félagið við Eyjólf.
Fasteignafélagið Eyjólfur hefur ekki birt ársreikning fyrir árið 2023 en félagið tapaði 168 milljónum árið 2022.
Eignir félagsins í árslok 2022 voru 5,5 milljarðar og var eigið fé félagsins 1,5 milljarðar. Handbært fé í lok árs var 340 milljónir króna.
Fasteignafélagið Eyjólfur sá um fjármögnun og stækkun höfuðstöðva Alvotech að Sæmundargötu 15-19 í Vatnsmýrinni.
ATP Holding ehf., móðurfélag Eyjólfs, heldur síðan utan um öll fasteignaverkefni Aztiq, stærsta hlutahafa Alvotech, á Íslandi.
Meðal dótturfélaga ATP Holding er Fasteignafélagið Sæmundur hf., sem byggði höfuðstöðvar Alvotech í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri.
Heimild: Vb.is