Home Fréttir Í fréttum Skýrari leið vantar til lög­gildingar

Skýrari leið vantar til lög­gildingar

93
0
Mikill skortur hefur verið á iðn- og tæknimenntuðu fólki á Íslandi um nokkurt skeið, og segir forstjóri Ístaks of litla endurnýjun á iðnmenntuðum hér á landi. Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Forstjóri Ístaks segir vanta skýra leið fyrir iðnaðarmenn, sem koma hingað til lands að starfa og eru með erlenda menntun, að fá löggildingu.

<>

Mikill skortur hefur verið á iðn- og tæknimenntuðu fólki á Íslandi um nokkurt skeið. Karl Andreassen, forstjóri Ístaks, segir of litla endurnýjun á iðnmenntuðum hér á landi. Hlutfall erlends vinnuafls hækki með auknum verkefnum.

„Það eru sífellt færri íslenskir iðnsveinar sem eru að koma til okkar að starfa og ekki margir að útskrifast á hverju ári.

Nú síðast útskrifuðust um 540 úr byggingartengdum fögum og er talað um met í þeim efnum. Þetta er ekki stór hópur miðað við hversu margir vinna við þessar greinar hér á landi.

Margir iðnmenntaðir enda á því að sækja sér aðra menntun eða hætta að starfa í þessum greinum. Þar að auki eru margir að hætta vegna aldurs, og ljóst að við þurfum meiri endurnýjun og hreyfingu á þessum hópi.

Við erum mikið með erlent vinnuafl í þessum greinum vegna skorts á iðnmenntuðum hér heima og með hverju ári verður hlutfallið skakkara þar sem hlutfall erlends vinnuafls vex með auknum verkefnum,“ segir Karl.

Hann segir vanta skýra leið fyrir iðnaðarmenn, sem koma hingað til lands að starfa og eru með erlenda menntun, að fá löggildingu eða í það minnsta menntun sína metna inn eða möguleika á að aðlaga hana að íslenskum kröfum.

„Það þarf að horfa til þeirra iðnaðarmanna sem eru að flytja til landsins að vinna hér. Iðnaðarmenn, sem eru t.d. búnir að ljúka rafvirkja- eða píparamenntun, koma hingað til lands og þurfa að fara í gegnum ýmiss konar endurmat og námskeið til að fá löggildingu.

Að mínu mati vantar skýrari leið fyrir þá til að fá löggildingu sem þarf hér heima til að starfa á markaðnum. Það ætti að búa til námslínu sem gæti gripið þennan hóp betur.“

Fjármagn fylgi aukinni aðsókn í iðnnám
Á undanförnum árum hefur verið bent á þann fjölda umsækjenda sem kemst ekki í iðnnám hér á landi. Á sama tíma vanti starfsfólk í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð til að sinna eftirspurn.

Áform eru um uppbyggingu á betri námsaðstöðu fyrir iðn- og tæknimenntun hér á landi. Karl segir mikilvægt að stjórnvöld setji nægt fjármagn í námið svo hægt sé að taka á móti öllum þeim sem sækja um iðnnám.

„Nú er verið að skipuleggja uppbyggingu á nýjum tækniskóla sem er mjög stórt og gott skref. En það tekur tíma að koma þessu af stað og það þarf að tryggja rekstur skólans með nægu fjármagni til að skólarnir geti tekið á móti öllum þessum umsækjendum. Það þarf að veita góða kennslu í þessum greinum sem þarf að kenna hér heima.”

Heimild: Vb.is