„Það er mín skoðun að hönnun og staðsetning Landeyjahafnar sé sennilega eitt mesta verkfræðislys seinni ára hér við Ísland.“
Þetta skrifar Halldór B. Nellett, fyrrverandi skipherra Landhelgisgæslunnar, í grein í Morgunblaðinu í vikunni.
Segir hann að varað hafi verið við því á sínum tíma að staðsetning hafnarinnar væri ekki æskileg. Vandamálin við staðsetningu og hönnun hafnarinnar væru tvíþætt.
Sjógangur utan hafnarmynnis og sandburður vegna nálægðar við Markarfljót. Þá væri einnig mjög líklegt við breytta hafnargarða að sanddæluskip gætu betur athafnað sig við verri aðstæður en ella.
Kostað meira að dæla sandi úr höfninni en að byggja hana
Minnist Halldór stjórnsýsluúttektar Ríkisendurskoðunar sem kom út í maí árið 2022 þar sem kom fram að allar áætlanir um rekstur Landeyjahafnar hefðu verið „mjög vanáætlaðar“.
„Þar sagði m.a. að búið væri að verja meira fé í að dæla sandi úr Landeyjahöfn en kostaði að byggja hana og var dýpkunarkostnaður á árunum 2011-2020 fjórfaldur miðað við upphaflegar áætlanir, þ.e. á fyrstu tíu árum hafnarinnar er kostnaður vegna viðhaldsdýpkunar orðinn meiri en byggingarkostnaður hennar,“ skrifar Halldór.
Nefnir hann að sandi hafi verið mokað úr höfninni á síðasta ári fyrir rúmlega 600 milljónir króna. Stofnkostnaður við höfnina nam tæpum 3,33 milljörðum króna.
„Nýjustu tölur um heildarkostnað við höfnina eru komnar í 8,2 milljarða. Á síðasta ári, þ.e. 2023, reyndist dýpkunarkostnaður vera rúmar 600 milljónir eins og áður sagði og var það dýrasta árið frá því að höfnin var byggð. Þetta er ótrúleg upphæð fyrir höfn sem kostaði á sínum tíma 3,3 milljarða. Nýr Herjólfur er ekki í þessari tölu en mun hafa kostað um 5,2 milljarða og alls er þetta því komið í 13 milljarða með smíði hans,“ skrifar Halldór.
Skorar á Vegagerðina
Halldór segir margar brotalamir vera á hönnun hafnarinnar og brýnt sé að bæta hana. Hann skorar á Vegagerðina að viðurkenna vandamálið og moka ekki bara endalausum sandi.
„Ég skora á Vegagerðina að viðurkenna vandann, höfnin sjálf, hönnun hennar og staðsetning er stærsta vandamálið. Reyna að finna lausnir en ekki bara moka sand endalaust.
Ef niðurstaða reyndra hafnarverkfræðinga verður sú að ekki sé hægt að lagfæra höfnina svo hún virki betur þurfa stjórnvöld að svara því hvort réttlætanlegt sé að eyða skattfé okkar í endalausan sandmokstur með stopulum ferðum eða þá hreinlega að afskrifa Landeyjahöfn algerlega,“ skrifar Halldór.
Heimild: Mbl.is