Hægt er að kaupa 575 fermetra byggingu á 2,2 milljónir króna á vefsíðunni Efnisveitan.is.
Ástæðan er sú að byggingin þarf að víkja fyrir nýjum íbúðum en húsið stendur á iðnaðarlóð að Breiðhöfða 11 í Reykjavík, þar sem lengst af var fyrirtækið Ísaga ehf., að því er kemur fram í tilkynningu frá Efnisveitunni.
„Byggingin var reist af Vélsmiðjunni Héðni árið 1992 og er því orðin 34 ára gömul. Hún er að mestu byggð úr ryðfríu stáli auk þess sem 75 fm límtrésbygging er áföst henni.
Það sem gerir það mögulegt að hægt er að selja bygginguna er að stálgrindarvirkið er boltað niður í steinsteypu sökkla og sterkbyggð byggingin er því auðveld í niðurtöku og flutning,” segir þar einnig.
Gert er ráð fyrir að það taki rúman mánuð að skrúfa niður bygginguna og að verkinu verði lokið með hækkandi sól.
Hugi Hreiðarsson hjá Efnisveitunni, segir þeim fyrirtækjum sífellt fjölga sem leita leiða við að lágmarka sóun og um leið efla hringrásarhagkerfið.
Bygging sem þessi kosti mikla orku og efnivið til að framleiða og að nývirði á efnivið byggingarinnar hlaupi á nokkrum tugum milljóna króna.
Heimild: Mbl.is