Home Fréttir Í fréttum Dýrafjarðargöng boðin út í haust, byrjað á vegi um Dynjandisheiði

Dýrafjarðargöng boðin út í haust, byrjað á vegi um Dynjandisheiði

623
0
Dýrafjarðargöng
Dýrafjarðargöng og nýr vegur um Dynjandisheiði munu stytta leiðina og ferðatímann um klukkutíma

Í tillögu að nýrri samgönugáætlun til ársins 2018 sem lögð var fram á Alþingi í síðustu viku er gert ráð fyrir að Dýrafjarðargöng verði boðin út í haust og framkvæmdir hefjist á næsta ári. Framkvæmdum við göngin á að ljúka árið 2020 og munu þau kosta alls 9,2 milljarða króna. Jarðgöngin úr Dýrafirði yfir í botn Borgarfjarðar í Arnarfirði, þar sem Mjólkárvirkjun er, munu stytta þjóðveginn frá Ísafirði um 27 kílómetra.

<>

Í tillögu að samgönguáætlun er einnig gert ráð fyrir að byrjað verði að leggja nýjan veg frá Mjólkárvirkjun og út í Dynjandisvog og þaðan um Dynjandisheiði á árunum 2017-2018. Sú vegalagning er 32 kílómetra löng og áætlaður kostnaður er 4,5 milljarðar króna. Áætlunin gerir ráð fyrir 400 milljóna króna framlagi á næsta ári og 450 milljónum árið 2018. Á Djúpvegi er gert ráð fyrir að verja 150 milljónum króna árið 2018 í lagfæringar á veginum í botni Seyðisfjarðar og yfir Eiðið til Hestfjarðar.

Jarðgangaframkvæmdir standa nú yfir við Norðfjarðargöng og lýkur þeim á næsta ári. Kostnaður við þau nemur 12,5 milljörðum króna. Dýrafjarðargöng koma næst samkvæmt samgönguáætlun. Svo sem kunnugt er standa einnig yfir framkvæmdir við jarðgöng undir Vaðlaheiði á milli Eyjafjarðar og Fnjóskadals. Þau göng voru ákveðin utan jarðgangaáætlunar og áttu að vera einhverskonar einkaframkvæmd. Þriðju jarðgöngin á norðausturhluta landsins eru á tillögu að samgönguáætlun. Það eru jarðgöng um Húsavíkurhöfða, vegna hafnargerðar norðan við Húsavík. Sú framkvæmd kostar 3 milljarða króna og eru framkvæmdir þegar hafnar. Auk þess er gert ráð fyrir að verja 140 milljónum næstu tvö ár í rannsóknir og undirbúning Seyðisfjarðarganga á Austfjörðum. Álftafjarðargöng á Vestfjörðum eru ekki komin á áætlun enn.

Heimild: Skutull.is