Ekkert er því til fyrirstöðu að hefja undirbúning að byggingu íbúðarhúsnæðis á lóðinni Grettisgötu 87. Þetta kemur fram í umsögn skrifstofu stjórnsýslu og gæða hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar.
Á lóðinni var áður bílaverkstæðið Bílrúðan, sem varð eldi að bráð hinn 7. mars 2016. Brunarústir hafa staðið þar síðan eða í rúm sjö ár og verið sannkallað lýti á umhverfinu.
Lögfræðistofan Landslög leitaði til umhverfis- og skipulagssviðs með bréfi í síðasta mánuði fyrir hönd eiganda Grettisgötu 87, sem er félagið Melholt ehf.
Í bréfinu er rakið hvað gerst hafði í málinu frá því húsið brann og er þar margt fróðlegt að finna.
Strax hinn 30. maí 2016 funduðu eigendur með starfsmönnum byggingafulltrúa um enduruppbyggingu hússins. Fengust þær upplýsingar að heimilt væri að endurbyggja húsið í sömu mynd og ekki þyrfti umfjöllun skipulagsyfirvalda vegna þess.
Heimild: Mbl.is