Góður árangur af borun eftir heitu vatni á Drangsnesi gæti þrefaldað afkastagetu hitaveitunnar þar. Öll takmörkun á notkun á heitu vatni verður úr sögunni og hægt að bæta fleiri íbúðarhúsum við hitaveituna.
Hjá Hitaveitu Drangsness hefur lengi verið leitað að heitu vatni, til viðbótar við það sem fyrir er, en boranir hafa ekki skilað árangri fyrr en nú. Ný borhola í þorpinu gefur um 30 sekúndulítra af 60 gráðu heitu sjálfrennandi vatni.
Afar góðar fréttir fyrir samfélagið
Finnur Ólafsson, oddviti Kaldrananeshrepps, segir þetta afar góðar fréttir fyrir samfélagið þar. „Miðað við þær upplýsingar sem ég hef núna þá erum við að ræða að þetta sé þreföldun á þessarri orku sem við höfum, sem er viðbót.“
Frekari prófanir næsta sumar leiði svo endanlega í ljós hvað hitaveitukerfið þolir mikla dælingu úr holunni.
Hitaveita í fleiri íbúðarhús
Fyrir var aðeins ein nothæf borhola á Drangsnesi og yfir kaldasta tíma ársins hefur þurft að takmarka notkun á heitu vatni. Sundlauginni hefur dæmis verið lokað af og til yfir veturinn.
Finnur segir að þetta verði úr sögunni og þegar sé farið að skoða möguleika á að tengja við hitaveituna íbúðarhús í dreifðari byggð í nágrenni Drangsness.
Þá hafi atvinnurekendur sýnt heita vatninu áhuga. „Svo það styrkir klárlega nýsköpunartækifæri og bara atvinntækifæri á okkar svæði.“
Heimild: Ruv.is