Home Fréttir Í fréttum Nýir stúdentagarðar rísa á háskólasvæðinu á Akureyri

Nýir stúdentagarðar rísa á háskólasvæðinu á Akureyri

172
0
Námsgarðarnir í Kjalarsíðu 1A & 1B. Í bakgrunni má sjá Háskólann á Akureyri og tvær aðrar byggingar FÉSTA, Tröllagil 29 og Drekagil 21. Nýju stúdentagarðarnir munu rísa á háskólasvæðinu sjálfu á árinu 2026.

Árið 2026 munu nýir stúdentagarðar rísa á háskólasvæðinu á Akureyri. Félagsstofnun stúdenta á Akureyri stendur fyrir samkeppni um hönnun á nýju stúdentagörðunum og mun niðurstaða liggja fyrir 22. febrúar 2024.

<>

Stúdentagarðarnir munu rísa á háskólasvæðinu en nemendum hafa staðið til boða íbúðir á vegum FÉSTA á fimm stöðum í bænum. Lögð er áhersla á aðlaðandi umhverfi og bjartar íbúðir fyrir nemendur skólans.

Jóhannes Baldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÉSTA, áætlar að nýju námsgarðarnir muni bjóða upp á um 60 til 70 einstaklingsherbergi, um 40 tveggja herbergja íbúðir og 20 stúdíóíbúðir og ættu þá að geta búið um 150-170 stúdentar á þessum námsgörðum.

Félagsstofnun stúdenta á Akureyri var stofnuð árið 1988 og var fyrsta byggingin reist við Skarðshlíð 46. Fyrstu stúdentarnir fluttu inn árið 1989 eða fyrir 34 árum. Í dag rekur FÉSTA námsgarða í 8 byggingum á 5 stöðum í göngufæri frá Háskólanum á Akureyri.

Hvergi betra að búa

Jóhannes segir að félagslífið í Háskólanum á Akureyri sé einstaklega gott og eigi stúdentafélagið hrós skilið fyrir að standa sig einkar vel í því.

„Háskólinn á Akureyri býður upp á margvíslegt nám og aðstaðan í háskólanum er til mikillar fyrirmyndar, allt til alls á svæðinu, stutt í útivist, skíði og svo framvegis. Það er bara hvergi betra að búa en á Akureyri,” segir Jóhannes.

Stúdentum við Háskólann á Akureyri hefur fjölgað frá rúmlega 1.400 árið 2006 í rúmlega 2.500 árið 2022. Haustið 2022 voru tæplega 36% stúdenta við háskólann með skráða búsetu á höfuðborgarsvæðinu. Rétt rúmlega 25% stúdenta við HA voru frá Norðurlandi eystra sem er næst stærsti landshlutinn. Flestir stúdentar sem stunda nám við Háskólann á Akureyri eru skráðir sem fjarnemar.

Jóhannes Baldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri FÉSTA

Aukin markaðssetning á samfélagsmiðlum

Sólveig María Árnadóttir er verkefnisstjóri samfélagsmiðla og samskipta Háskólans á Akureyri. Sólveig hefur starfað í háskólanum frá því hún útskrifaðist þaðan árið 2020. Starf Sólveigar er margþætt. Hún stýrir samfélagsmiðlum háskólans auk þess sem hún sér um auglýsingaherferðir háskólans, kynnir námsframboð HA fyrir verðandi stúdentum og heldur utan um viðburði á vegum háskólans.

Sólveig segir að á undanförnum árum hafi markaðssetning á samfélagsmiðlum færst í aukana og sé í raun orðin aðaltólið sem háskólinn nýtir sér til að ná til nýnema, þrátt fyrir að sjá megi auglýsingar skólans í raunheimum líkt og strætóskýlum, vefmiðlum og auglýsingaskiltum.

Hús segir „auglýsingaherferð“ skólans mikið til vera mótaða af stúdentum skólans. „Við reynum eftir fremsta megni að segja sögur, auglýsa námið og það sem hér er í boði á persónulegan hátt og láta raddir stúdenta hljóma.”

Sólveig María Árnadóttir verkefnisstjóri samfélagsmiðla og samskipta Háskólans á Akureyri

Margir sækja í sveigjanlegt nám

Samkvæmt tölum á vef háskólans hefur samsetning stúdentahóps háskólans breyst töluvert og í dag er meirihluti þeirra stúdenta sem sækja nám við háskólann skráðir í fjarnám. Aðspurð segir Sólveig að þessa þróun mega rekja til þess sveigjanlegs náms sem skólinn býður upp á.

„Sveigjanlegt námsfyrirkomulag HA hefur haft mikil áhrif á þessa þróun. Það eru 25 ár síðan við hófum okkar vegferð í fjarkennslu og erum stöðugt að þróa og bæta það. Niðurstöður rannsókna hafa sýnt að HA hefur eflt byggðaþróun í landinu og veitt fleiri einstaklingum tækifæri til náms. Þá hefur HA alltaf lagt áherslu á að vera persónulegur háskóli, við þekkjum stúdentana okkar með nafni og hér er öflugt samfélag. Þessi persónulega nálgun held ég að hafi einnig haft áhrif,“ segir Sólveig.

Hún heldur áfram og leggur áherslu á að samsetning stúdentahópsins eigi eflaust sinn þátt í þróuninni. „Stór hluti stúdenta okkar er fjölskyldufólk auk þess sem meirihluti stúdenta vinnur meðfram námi. Það gagnast því mörgum að þurfa ekki að mæta í kennslustofu í rauntíma en ég tel þó mikilvægt að stúdentar mæti í HA í lotur. Persónulega myndi ég óska þess að námslánakerfið myndi gera stúdentum kleift að stunda námið eitt og sér enda er háskólanám full vinna.“

Skólalífið að komast í eðlilegt horf

Sólveig segir að lífið innan veggja skólans hafi einungis verið skugginn af sjálfum sér á tímum heimsfaraldurs COVID-19 þrátt fyrir að hún telji skólann hafa verð vel í stakk búinn fyrir heimsfaraldurinn enda í fararbroddi í fjarkennslu. Hún finnur fyrir auknu ákalli eftir meira félagslífi enda hafi margir nýnemar skólans upplifað framhaldsskólagöngu sína á dögum heimsfaraldurs og misst af stórum hluta þess félagslífs sem eðlileg skólaganga býður upp á.

„Mér finnst eins og ég hafi verið að sjá aukningu í fjölda stúdenta saman á teppinu að læra og svona. Þannig að það virðist vera að stúdentar séu alveg að sækja í ákveðið háskólasamfélag og tengingar á staðnum þó þeir vilji líka þennan sveigjanleika.”

Sólveig segist vera bjartsýn á framtíð háskólans og stolt af því að tilheyra Háskólanum á Akureyri sem hún telur mikilvægan hornstein í samfélaginu. Hún segir markmið háskólans ekki mæld í stúdentafjölda heldur þjónustu við nemendur og farsæld þeirra.

„Ég fer ekki ofan af því að stofnun HA hafi verið ein öflugasta byggðaaðgerð sem ráðist hefur verið í hér á landi og það hefur margsannað sig,” segir Sólveig María Árnadóttir.

Heimild: Vikubladid.is