Home Fréttir Í fréttum Brýnt að stækka höfnina á Sauðárkróki

Brýnt að stækka höfnina á Sauðárkróki

89
0
RÚV – Sölvi Andrason

Plássleysi stendur frekari uppbyggingu hjá fyrirtækjum á hafnarsvæðinu á Sauðárkróki fyrir þrifum. Hönnun nýrrar hafnar er langt komin og hafnarstjórinn vill hefja framkvæmdir strax.

<>

Umsvifin á bryggjunum í Sauðárkrókshöfn eru jafnan mikil. Dagur Þór Baldvinsson, hafnarstjóri Skagafjarðarhafna, segir starfsfólkið finna vel fyrir þrengslum sem orðin eru í höfninni þegar mest gengur á. „Þegar allur flotinn er í höfn, fiskmarkaðurinn er á fullu og flutningaskip er að koma, þá er þetta orðið mjög þröngt hjá okkur.“

Framtíðaruppbygging fyrirtækja háð stækkun hafnarinnar
Mesti vaxtarbroddurinn í atvinnulífinu á Sauðárkróki hefur verið við hafnarsvæðið síðustu misseri. Framtíðaruppbygging fyrirtækja þar er því háð nauðsynlegri stækkun hafnarinnar.

„Hér eru fyrirtæki í stækkunarhugleiðingum, eins og Fisk Seafood með nýtt hátækni fiskvinnsluhús, Steinullarverskmiðjan er í stækkunarhugleiðingum, Dögun rækjuvinnsla og Kjarninn og fleiri. Þannig að hér kalla umsvifin bara á nútímalega höfn,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri í Skagafirði.

Teikning af viðbótum við höfnina á Sauðárkróki
RÚV – Sigurður Kristján Þórisson

Vilja hafnarframkvæmdir framar á samgönguáætlun
Þar þurfi bæði stækkun og meira viðlegupláss, en ekki síst meira dýpi. Og það er ný ytri höfn á teikniborðinu, komin á samgönguáætlun, en ekki fimm ára framkvæmdaáætlun. Það verður að breytast segja Sigfús og Dagur. Það liggi mikið á.

„Núverandi höfn er bara með átta metra djúpristu fyrir skip, en við þurfum helst að komast í upp undir tíu metra,“ segir Sigfús. „Það er það sem þarf að gerast innan mjög fárra ára.“

Undir þetta tekur Dagur. „Við getum ekki beðið lengur. Við þurfum að fá þetta bara helst á morgun.“

Heimild: Ruv.is