Plássleysi í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra er meira en nokkru sinni fyrr. Ýmis rými eru nýtt til kennslu – svo sem gámar, skólagangar og kaffistofa kennara.
Mikil þrengsli hafa myndast í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra. Brugðið hefur verið á ýmis ráð til að koma öllum nemendum fyrir og kennsla fer meðal annars fram í gámum.
Nemendum skólans hefur fjölgað nokkuð ört. Árið 2013 voru þeir 490 talsins, þar af voru 119 í verk- og starfsnámi og tólf í helgarnámi. Nú eru nemendur 740 og 387 þeirra í verknámi. Helgarnemar eru 119. „Þetta eru svona vaxtarverkir sem fylgja þessari stækkun,“ segir Þorkell V. Þorsteinsson, aðstoðarskólastjóri Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
„Varla bjóðandi nemendum að þurfa að vera í þessari aðstöðu“
Til að bregðast við fjölguninni hefur verið brugðið á ýmis ráð. Ein lítil en mikilvæg breyting var gerð til að spara pláss. Þá var mörgum borðum og tækjum komið á dekk svo auðveldlega sé hægt að færa þau um og þannig búa til pláss.
Þá hefur lagnabásum fyrir rafiðnaðarbraut verið komið fyrir á ótrúlegustu stöðum, til dæmis á göngum skólans og í gámum. Garðar Páll Jónsson, deildarstjóri rafiðna, segir stöðuna ekki viðunandi. „Við höfum reynt að leysa vandamálin þegar við komum að þeim. En það er varla bjóðandi nemendum að þurfa að vera í þessari aðstöðu,“ segir hann.
Heimild: Ruv.is