Ein frægasta bygging 20. aldarinnar hélt upp á 50 ára afmæli sitt í gær. Það tók 14 ár að byggja húsið og kostnaðurinn við bygginguna var 15 sinnum hærri en upphafleg kostnaðaráætlun hljóðaði upp á. Arkitektinn sem hannaði bygginguna sá hana aldrei, þrátt fyrir að hafa lifað í 35 ár eftir að húsið var fullbyggt.
8. undur veraldar
Það var þann 20. október árið 1973 sem Óperuhúsið í Sydney í Ástralíu stóð loks fullbúið. Húsið hefur allt frá upphafi verið talið ein fegursta bygging heims og er stundum kölluð 8. undur veraldar. En bygging hússins gekk ekki átakalaust fyrir sig. Fjarri því.
Hönnuður hússins sá það aldrei fullbyggt
Árið 1957 var haldin samkeppni um byggingu óperuhúss í Sydney. Alls bárust 233 tillögur og hlutskarpastur varð tiltölulega óþekktur danskur arkitekt, Jørn Utzon, aðeins 38 ára gamall. Innblástur Utzons að húsinu voru trúarhof Maya og Azteka í Suður-Ameríku. Tveimur árum síðar, árið 1959, hófst bygging hússins.
Utzon flutti til Sydney með fjölskyldu sinni til að fylgjast með byggingu hússins, en árið 1966 yfirgaf hann Ástralíu og verkefnið vegna ósamkomulags við áströlsk stjórnvöld. Hann sneri aldrei aftur til Ástralíu og sá því aldrei húsið sem kemur til með að halda nafni hans á lofti um ókomna tíð, en hann lést árið 2008.
Fór langt fram úr öllum áætlunum
Byggingartíminn var í upphafi ætlaður 4 ár, en það tók heil 14 ár að byggja húsið. Kostnaðaráætlun hljóðaði upp á 7 milljónir Ástralíudala, en það teygðist duglega úr henni og þegar upp var staðið kostaði bygging hússins tæplega 15 sinnum meira, eða 102 milljónir dala. Á gengi dagsins í dag eru það tæpir 10 milljarðar íslenskra króna.
Byggingin var sett á heimsminjaskrá Unesco árið 2007. Alls heimsækja um 11 milljónir ferðamanna Óperuhúsið á ári hverju. Í húsinu fara fram um 1.800 viðburðir á ári sem um 1,2 milljónir manna sækja. Og í húsinu starfa rúmlega 8.000 manns.
Hér að neðan er hægt að horfa á tilkomumikla ljósa- og flugeldasýningu sem haldin var í gærkvöldi til að fagna afmæli hússins.