Framtíðin er óljós á Grettisgötu 87. Húsið er nú í höndum Tryggingafélagsins og verktakar á þess vegum voru á vettvangi þegar fréttastofa leit við í dag, til að kanna hvort einhverjum verðmætum megi bjarga. Ljóst er að byggingarreiturinn er gríðarlega verðmætur, í hjarta Reykjavíkur.
Brunabótamat þessarar gömlu verkstæðisbyggingar er um 200 milljónir króna, en reiturinn allur, svo kallaður Tryggingastofnunarreitur, er mikið flæmi, tæpir 7 þúsund fermetrar. Þetta er að hluta til eignarlóð en hinn hlutinn er í leigusamningi við Reykjavíkurborg. Þar er í gildi deiliskipulag frá árinu 2006, sem gerir ráð fyrir að húsið að Grettisgötu 87víki fyrir íbúðabyggð.
Hluti af andlitslyftingu Hlemms-svæðisins
„Bæði á þessum reit og reyndar nokkrum reitum hér í kringum Hlemm var gert skipulag sem hlaut nafnið Hlemmur+ og var ætlað að leiða til endurfjárfestingar og andlitslyftingar á öllu svæðinu,” sagði Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þegar fréttastofa mælti sér mót við hann á Grettisgötu í dag.
„Við sjáum að nú þegar eru að rísa 500 íbúðir og rúmlega það hérna í næsta nágrenni og þetta var einn af möguleikunum sem var boðið upp á.“
Gangi deiliskipulagið eftir myndi byggingamagn á reitnum ríflega tvöfaldast, úr 1600 fermetrum í 3900 fermetra, með þriggja hæða íbúðablokk í samræmi við blokkir sem eru þar fyrir auk bílastæðakjallara fyrir 500 bíla.
Heimild: Vísir.is