Home Fréttir Í fréttum Perlan „langt frá því“ að vera verð­mætasta eign borgarinnar

Perlan „langt frá því“ að vera verð­mætasta eign borgarinnar

103
0

Skrif­stofu­stjóri eigna­skrif­stofu borgarinnar segir líklegt að borgin muni leita til fasteignasölu til að fá endanlegt verðmat á Perluna en borgin mun sjá um söluna sjálf.

<>

Óli Jón Hert­ervig, skrif­stofu­stjóri eigna­skrif­stofu borgarinnar, segir sölu­ferlið á Perlunni vera á byrjunar­stigi.

Borgin sé ekki með verð­mat á eigninni í höndunum enn sem komið er en sam­kvæmt út­reikningum Við­skipta­blaðsins byggðum á mæli­kvörðum sem sér­fræðingar á eigna­mörkuðum styðjast við má á­ætla að verð­mat Perlunnar sé á bilinu 2,5 til 3 milljarðar ís­lenskra króna.

Leigu­tekjur Perlunnar eru rúmar 20 milljónir á mánuði en rekstrar­kostnaður eignarinnar er hærri en gerist og gengur. Með Perlunni fylgir þó byggingar­réttur á lóðinni fyrir 1.238,5 m2 við­byggingu sem mun ó­hjá­kvæmi­lega hækka verð­matið.

Auglýst fyrir árslok
„Erindi borgar­ráðs snerist um það að við fengjum heimild til að hefja sölu­ferlið. Það þarf síðan stað­festingu borgar­stjórnar, sem er eftir hálfan mánuð. Við erum þá að fara að stíga fyrstu skrefin en það getur tekið marga mánuði að fá verð­mat og slíkt,“ segir Óli Jón.

„Við höfum ekkert verið að velta þessu sér­stak­lega fyrir okkur enda erum við ekkert að flýta okkur. Við ætlum bara að aug­lýsa þetta, vonandi á þessu ári. Við gerum það þegar búið er að verð­meta þetta og sjá hvað við getum fengið fyrir þetta,“ segir Óli Jón.

Sem fyrr segir eru leigu­tekjurnar rúmar 20 milljónir en Óli Jón segir að byggingar­réttinn og ýmis­legt annað þurfi að verð­meta til að fá heildar­verð­mat í eignina. „Það eru ekki bara leigu­tekjurnar sem búa til verð­mætin.“

Að­spurður segir hann Perluna langt frá því að vera eina af verð­mætustu eignum borgarinnar en þar má nefna Ráð­húsið, Orku­veitu­húsið, Borgar­leik­húsið, Hörpuna og fleira. „Ef við miðum við fast­eigna­mat eða slíkt varðandi verð­mætustu eignirnar þá eru sumir grunn­skólar miklu stærri, eins og Úlfarsár­dalurinn, sem er þrettán milljarðar,“ segir Óli og á þar við mið­stöð skóla, menningar og í­þrótta í Úlfarsár­dal.

Óli Jón segir lík­legt að borgin muni fá fast­eigna­sölu með sér í lið til að verð­meta Perluna en salan sjálf mun að öllum líkindum fara í gegnum borgina.

Þegar borgin keypti Perluna árið 2013 var reksturinn í miklu tapi og segir Óli Jón borgina nú vera að skila góðri vöru á markað og það sé best að aðrir þrói hús­næðið á­fram.

Heimild: Vb.is