Katrínartún 4 iðar nú af lífi. 450 starfsmenn hafa komið sér fyrir í verkefnamiðuðu vinnuumhverfi í glænýju húsi.
Í upphafi árs 2020 sameinuðust embætti ríkisskattstjóra og tollstjóra í eina stofnun, Skattinn, og fyrir rúmum tveimur árum bættist embætti skattrannsóknarstjóra í hópinn.
Mikilvægur liður í því umfangsmikla ferli hefur verið að færa þrjár starfsstöðvar hinnar sameinuðu stofnunar á höfuðborgarsvæðinu undir eitt þak í því skyni að auka hagkvæmni og hámarka samlegðaráhrif.
Hið nýja húsnæði leysir því af hólmi gömlu höfuðstöðvar ríkisskattstjóra, tollstjóra og skattrannsóknarstjóra.
Sérfræðingar FSRE hófust handa við að skilgreina húsnæðisþarfir Skattsins þegar árið 2021. Eftir auglýsingu og ítarlegt valferli var ákveðið að semja við Íþöku um leigu á óbyggðu húsi við Katrínartún 4 og að Fjársýslan myndi einnig flytja í húsið.
Samningur um nýtt skrifstofuhúsnæði fyrir Skattinn og Fjársýslu ríkisins í Katrínartúni 6 var undirritaður í júní 2021. Byggingin öll telur 9. hæðir, eða um 11.705 fermetra og hefur
Skatturinn yfir að ráða 9.705 fermetrum þar sem alls starfa um 370 manns, en samtals eru starfsmenn Skattsins nú tæplega 500 talsins á landinu öllu. Starfsmenn Fjársýslunnar eru 82.
Skipulag vinnurýma var byggt á húsrýmisáætlun sem tók m.a. mið af verkefnamiðuðu vinnuumhverfi. Stærsti hluti starfsmanna er í opnum og björtum vinnurýmum með gott aðgengi að fjölbreyttum stoðrýmum.
Næðisrýmin eru til að mynda mörg hver með uppsettar vinnustöðvar en önnur smærri eru einnig til staðar sem geta þá t.d. nýst til styttri símtala. Fundaraðstaða af ýmsum stærðum og gerðum eru á hverri hæð og hentar vel til ýmiss konar teymisvinnu, hvort sem þörf er á sitjandi eða standandi styttri fundum.
Á 1. hæð hússins er m.a. Fjársýslan með sína starfsemi en þar er að auki nútímalegur fyrirlestrarsalur sem tekur um 70 manns í sæti auk glæsilegs og bjarts mötuneytis sem nýtt er af báðum stofnununum.
Skatturinn fékk hið nýja húsnæði afhent þann 5. júní sl. og flutningar fóru fram yfir sumartímann. Þann 30. ágúst sl. var öll starfsemi Skattsins á höfuðborgarsvæðinu flutt í Katrínartún 6 og afgreiðslan á 1. hæð tilbúin til að taka á móti viðskiptavinum í nýjum og glæsilegum húsakynnum.
Starfsfólk Skattsins í Katrínartúni er ánægt að vera loks búið að sameinast fyrir alvöru hér á höfuðborgarsvæðinu í eitt húsnæði og lítur jákvæðum augum til framtíðar í hinu nýja og bjarta húsnæði.
Heimild: FSRE.is