Byggingu nýrrar Hamarshallar verður frestað og íþróttahús til bráðabirgða tekið í notkun í staðin. Vonbrigði, segir formaður íþróttafélagsins Hamars.
Ný Hamarshöll rís ekki á næstu misserum eins og áætlað var. Tekið verður í gagnið íþróttahús til bráðabirgða í þrjú til fimm ár. Formaður íþróttafélagsins Hamars segir mikilvægt að tímasetningar standist og að það dragist ekki á langinn að bæta aðstöðuna.
Til stóð að byggja nýja Hamarshöll í Hveragerði í stað þeirrar sem eyðilagðist í illviðri í febrúar í fyrra. Á fundi bæjarráðs í Hveragerði þann 10. ágúst samþykkti meirihluti Okkar Hveragerðis og Framsóknar að fresta framkvæmdum um þrjú til fimm ár. Þorsteinn Theódór Ragnarsson, formaður íþróttafélagsins Hamars í Hveragerði, segir biðina eftir svörum hafa verið langa.
„Þetta eru ekkert endilega svörin sem við vildum fá en þetta eru þó svör og þau eru náttúrulega að einhverju leyti vonbrigði en við erum svona að vonast til þess að það verði staðið við þessi fyrirheit um að reisa hér Hamarshöll innan þriggja til fimm ára.“
Fara fram á að aðstaðan verði ekki lakari en áður
Þorsteinn segir aðstöðuna hafa verið mjög góða í gömlu Hamarshöllinni. Síðastliðið ár hafi verið erfitt og einkennst af miklu púsli. Hann segir Hamarsliða ekki hafa skoðun á gerð nýju íþróttahallarinnar en þeir fari fram á að aðstaðan verði ekki lakari en áður. Bráðabirgðahúsnæðið standist ekki þær kröfur.
„Við óttumst það auðvitað að þetta geti tekið mun lengri tíma að fá upp þessa Hamarshöll því dæmin hafa svo sem sýnt, bæði á Selfossi og líka niðri á Stokkseyri, að þegar búið er að innrétta iðnaðarhúsnæði undir íþróttastarfsemi og kosta töluverðu til þá gæti það verið svolítið dýr pakki að fara að pakka því öllu saman og byrja upp á nýtt annarsstaðar,“ segir Þorsteinn.
Heimild: Ruv.is