Viðskipti hafa gengið erfiðlega hjá eiganda vinnustofu við Rauðárstíg við Bríetartún því að gatan hefur verið lokuð síðan um miðjan júlí í fyrra. Opna átti götuna í maí.
Síðustu þrettán mánuði hefur mikið reynt á þolinmæði atvinnurekenda og íbúa á Rauðárstíg milli Hverfisgötu og Bríetartúns. Götur eru sundurgrafnar og erfitt að komast leiðar sinnar og umferð bíla ekki möguleg.
Ekki ólíkt því sem var þegar viðgerðirnar stóðu yfir á Hverfisgötunni. Ekki er hægt að aka nema hluta Bríetartúns heldur og svo rétt hjá er Laugavegur frá Hlemmi lokaður að Snorrabraut af sömu ástæðum.
„Þetta eru einn, tveir menn sem eru að vinna hérna. Hraðinn er enginn. Það er ekkert verið að rusla þessu af,“ segir Sigurður Héðinn sem rekur vinnustofuna Haug á horni Bríetartúns og Rauðarárstígs.
Búið að vera rosalega töff
Sigurður Héðinn opnaði Haug í sama mánuði og covid faraldurinn skall á. Þangað leita stangveiðimenn í leit að flugum eða fara á námskeið þar í fluguhnýtingum.
Hvernig eru viðskiptin búin að vera hjá þér?
„Þetta er náttúrulega búið að vera svona frekar erfitt. Það verður bara að viðurkennast. Það er bara þannig.“
Þarft þú bara að loka sjoppunni eða hvað?
„Ég bara veit það ekki, en þetta er rosalega töff.“
Hörðum vetri um að kenna segir borgin
Sigurður segir ekki við verktakann að sakast og hefur skilning á að veturinn var óvenju snjóþungur. En hins vegar verði að gera ráð fyrir því í skipulagi verka að ekki hægt að vera á fullum afköstum að vetri til.
Borgin segir í svörum til fréttastofunnar að ef ekki hefði verið fyrir harðan vetur hefði verkinu verið lokið. Nú væri verið að bíða eftir kantsteini og að opnað verði fyrir umferð í lok ágúst en að frágangi ljúki í september.
„Það voru fyrirheit um að það yrðu góð samskipti, ég meina, þeir komu hérna einu sinni inn í búðina þegar verkið byrjaði og síðan hef ég ekki heyrt í þeim meir.“
Í svörum borgarinnar segir að upplýsingar um helstu breytingar hafi verið sendar með tölvupósti og það hafi Veitur líka gert. Hins vegar sé alltaf hægt að gera betur í samskiptum.
„Það vantar alla gangandi umferð. Þetta er bara mjög erfitt að komast hingað. Það er vandamál en hvað maður gerir, tíminn verður bara að leiða það í ljós.“
Sjá má tilkynningar frá Reykjavíkurborg um framkvæmdirnar hér.
Heimild: Ruv.is