Warren Buffet hefur ákveðið að veðja á þrjú skráð fyrirtæki í byggingariðnaðnum en ólíkt hér heima er mikil gróska vestanhafs í byggingu nýrra íbúða.
Berkshire Hathaway, fjárfestingarsjóður Warren Buffet, hefur ákveðið að fjárfesta yfir 800 milljón Bandaríkjadölum eða rúmlega 105 milljarða íslenskra króna í þrjú byggingarfyrirtæki.
Fjárfestingin átti sér stað í lok júní en varð opinber eftir lokun markaða í gær þegar fyrirtækið skilaði inn gögnum um breytingar á eignasafni sínu á ársfjórðungnum til eftirlitsaðila.
Byggingarfyrirtækin þrjú, D.R. Horton, NVR og Lennar, eiga það öll sameiginlegt að sérhæfa sig í að byggja íbúðarhúsnæði en háir stýrivextir í Bandaríkjunum hafa leitt til mikillar grósku í byggingu nýrra íbúða.
Íbúðareigendur sitja sem fastast
Ólíkt hér heima fylgir lán ekki seljanda í Bandaríkjunum og haldast vextir á eigninni. Fasteignaeigendur með fasta vexti hafa því litla ástæðu til að selja og hefur það leitt af sér mikinn uppgang í nýbyggingum.
Hlutabréf í byggingarfyrirtækjum hafa í kjölfarið rokið upp og hefur S&P Homebuilders Select Industry vísitalan hækkað um 39% á árinu.
Á Íslandi er staðan önnur en samkvæmt gögnum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun má búast við sögulega fáum nýjum íbúðum á næstu árum þar sem mjög fáar íbúðir eru á fyrsta framvindustigi. Mun það valda skorti árið 2025.
Heimild: Vb.is