Home Fréttir Í fréttum Lands­banka­húsið kostar 16,5 milljarða

Lands­banka­húsið kostar 16,5 milljarða

106
0
Framkvæmdum við nýtt húsnæði bankans við Reykjastræti 6 er nú að mestu lokið og gert er ráð fyrir að lóðarfrágangi ljúki snemma í haust. Ljósmynd: Eyþór Árnason

Samkvæmt áætlun sem gerð var í lok árs 2019 var gert ráð fyrir að kostnaður við bygginguna yrði 11,8 milljarðar króna.

<>

Heildarkostnaður Landsbankans við byggingu nýrra höfuðstöðva við Reykjastræti 6 verður um 16,5 milljarðar króna. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi bankans.

Samkvæmt áætlun sem gerð var í lok árs 2019 var gert ráð fyrir að kostnaður við bygginguna yrði 11,8 milljarðar króna, án verðbóta.

Aukinn kostnaður við verkið nemur 3,4 milljörðum króna. Í árshlutareikningi segir að ástæðan fyrir auknum kostnaði sé lengri verktími en áður var gert ráð fyrir, magnaukning á byggingarefnum og frávik sem komu upp á byggingartíma.

Auk þess hafi byggingarvísitalan hækkað um 25% á verktímanum og er kostnaður vegna vísitölubreytinga áætlaður 1,4 milljarðar króna.

Ríkið greiðir 6 milljarða fyrir Norðurhús
Landsbankinn mun hins vegar ekki nýta alla bygginguna undir sína starfsemi. Þannig hefur ríkið undirritað samning um kaup á Norðurhúsi, sem er hluti af Landsbankahúsinu, á um sex milljarða króna.

Um er að ræða tæplega 6 þúsund fermetra byggingu, en húsið er í heildina 16.500 fermetrar að stærð en 21.500 fermetrar að bílakjallara og tæknirýmum meðtöldum. Ríkissjóður mun í fyrstu greiða 4,6 milljarða króna, en 1,4 milljarðar munu bætast við kaupverðið þegar gengið hefur verið frá jarðhæð og kjallara.

Í árshlutareikningi segir að söluverð á þeim hlutum byggingarinnar sem bankinn mun ekki nýta og áætlað söluverð gamla Landsbankahússins í Austurstræti og tengdra bygginga nemi samtals um 7,8 milljörðum króna

Til viðbótar nemi árlegur sparnaður af flutningum í Reykjastræti um 600 milljónum króna og þar af sé sparnaður vegna húsaleigu um 480 milljónir króna árlega.

Heimild: Vb.is