Karlmaður fékk dæmdar bætur frá húsfélagi fjöleignarhúss í Héraðsdómi Reykjaness. Var hann kallaður til til að skoða lagnarými fjöleignarhússins en vildi þá ekki betur til en hann datt ofan í 1,5 metra gryfju í gólfinu og hlaut 15% varanlega örorku af því falli.
Stefndi hann eigendum hússins til greiðslu skaðabóta vegna þess líkamstjóns sem hann varð fyrir. Þurfti hann að þræða dimma ranghala í leit að ljósrofa en datt niður gatið áður en ljósrofinn fannst. Yfir gatinu hefði alla jafnan átt að vera laus viðarplata, en einhverra hluta vegna var búið að fjarlægja hana.
Ekki vitað hver tók plötuna
Hinir stefndu báru því við að þeir væru ekki skaðabótaskyldir í málinu. Hefði stefnandi arkað inn í myrkt rýmið, án þess að lýsa það upp með vasaljósi. Var vísað til þess að um framkvæmdasvæði hafi verið að ræða og hefði hann því mátt sýna meiri varkárni. Ekki var vitað hver fjarlægði viðarplötuna og því erfitt að sakast við stefndu í því máli.
Dómari tók að nokkru undir þetta, sagði stefnanda bera hluta ábyrgðar að gæta sín ekki betur. Hæpið væri þó að kalla fjöleignahúsið framkvæmdasvæði þar sem mörg rými þar voru þegar komin í rekstur. Því hefði það verið á þeirra ábyrgð að ganga þannig frá rýminu að ekki væri hætta á að falla ofan í opið rými.
Vegna gáleysis stefnanda var dreginn ¼ af skaðabótagreiðslu til hans, en honum dæmdar til greiðslu ¾ auk einnar milljónar í málskostnað.
Heimild: Mbl.is