Skipulagsstofnun telur að fyrirhuguð uppbygging þjónustuaðstöðu fyrir ferðamenn í Landmannalaugum geti haft neikvæð áhrif á óbyggðaupplifun ferðamanna og náttúrugæði.
Í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismat á uppbyggingu í Landmannalaugum koma fram efasemdir um áhrif uppbyggingar á upplifun ferðamanna. Uppbygging komi til með að hafa neikvæð áhrif á óbyggðaupplifun ferðamanna og náttúrugæði.
Rangárþing ytra skilaði umhverfismatsskýrslu um uppbyggingu þjónustumiðstöðvar í Landmannalaugum í desember og Skipulagsstofnun hefur nú skilað áliti um matið.
Ný aðstaða við Námshraun
Áform eru um uppbyggingu nýrrar þjónustuaðstöðu fyrir ferðamenn við Námshraun í Landmannalaugum í stað núverandi aðstöðu við Laugahraun sem verður í lágmarki. Þó verður enn um sinn gistiaðstaða í skála Ferðafélags Íslands auk þess sem aðstaða við laug verður bætt. Jafnframt verður aðstaða ferðamanna við Námskvísl bætt og endurbættir núverandi varnargarðar og byggðir nýir við ána sem og við Jökulsgilskvísl.
Í álitinu kemur fram að af fyrirliggjandi rannsóknum megi ráða að álag sé þegar orðið mikið á svæðið og að ánægja ferðamanna í Landmannalaugum sé að dvína vegna ófullnægjandi aðstöðu og fjölda ferðamanna á svæðinu. Ljóst sé að bæta þurfi aðstöðu fyrir ferðamenn og stýra fjölda ferðamanna þannig að ágangur verði ekki of mikill.
Hefði þurft að skoða aðra kosti betur og kanna viðhorf til uppbyggingar
Þá hefði þurft að skoða frekar aðrar leiðir til uppbyggingar á aðstöðu fyrir ferðamenn og ólík umhverfisáhrif ólíkra leiða. Til að mynda að annars byggja frekar upp núverandi aðstöðu við Laugahraun eða færa þjónustu við ferðamenn frá Landmannalaugasvæðinu.
Ljóst sé að með uppbyggingu við Námshraun muni aðstaða fyrir ferðamenn batna en óvissa sé um hvort uppbyggingin komi til með að hafa neikvæð áhrif á óbyggðaupplifun og náttúrugæði, meðal annars vegna þess að ekki hafi verið könnuð viðhorf ferðamanna til umfangs uppbyggingarinnar fyrir umhverfismatið.
Samkvæmt eldri rannsóknum liggi þó fyrir að ferðamenn vilji ekki sjá mikla uppbyggingu á Landmannalaugasvæðinu til viðbótar. Skipulagsstofnun telur að áður en kemur til leyfisveitinga sé ástæða til að gera viðhorfskönnun meðal ferðamanna.
Heimild: Ruv.is