„Menn geta alveg með fullum rétti haldið því fram að þetta hafi ekki verið mjög skynsamleg ákvörðun, en á móti kemur að það er ekki endalaust hægt að taka mið af þessu.“
Þetta segir Sigmundur Einarsson, jarðfræðingur og sérfræðingur í eldvirkni á Reykjanesskaga, spurður hvort óskynsamlegt hafi verið að byggja upp íbúabyggð á Völlunum í Hafnarfirði í ljósi eldvirkninnar.
Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur sagði í samtali við mbl.is í gær að ekki væri ráðlagt fyrir Hafnarfjarðarbæ að byggja lengra í suðurátt. Hann tók þó fram að gosvirknin þyrfti að færa sig um sprungurein svo að eldgos við Vellina, syðsta hverfi Hafnarfjarðar, yrði að veruleika.
Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri sagði ummælin óábyrg og óþörf. Næstu framkvæmdir á Völlunum verði þó í austurátt en ekki í suður.
„Auðvitað hefði verið betra að byggja þá á betri stað, en það var ekkert annað að hafa,“ segir Sigmundur, og minnist á að ef sú hugsun hefði verið í forgrunni þá hefði ekki átt að eiga sér stað uppbygging í Vestmannaeyjum eftir gosið 1973. Meira um það síðar.
Tvisvar sinnum gosið eftir landnám
Sigmundur nefnir að tvisvar sinnum hafi runnið hraun á svæðinu við Vellina eftir landnám.
Hraunið sem álverið í Straumsvík stendur á er sennilega frá árinu 1150. Þá er hrauntaumur undir Völlunum sem nær eiginlega alveg út í sjó, frá 10. öld.
Hraunið sem Hvaleyrarvöllur er á, þ.e.a.s. frá Hvaleyrinni yfir að álverinu, er svo um tvö þúsund ára gamalt.
Allt að 25 kílómetra sprunga
Sigmundur nefnir að er byrjað var að byggja virkjunina í Svartsengi á áttunda áratugnum hafi menn metið hættuna á gosi.
„Menn vissu nú svo sem ekkert mikið, en vissu þó að þarna hefði gosið sennilega einhvern tímann í kringum 1200. Ef menn eru að halda því fram núna að það þurfi að gera eitthvað stórt til að bjarga [byggð] þá er það ekkert nýtt. Menn hafa lengi vitað þetta,“ segir hann og bætir við að orkuverið sé byggt út frá þessari þekkingu.
„Menn vissu það þegar þeir byrjuðu, að það var ákveðin hætta fyrir hendi.“
Sigmundur nefnir að síðast er gaus fyrir ofan Vellina hafi myndast allt að 25 kílómetra gossprunga.
„Þetta eru bara smá sprænur sem eru núna,“ segir hann og hlær, en gossprungan við Litla-Hrút er nú um 50 til 100 metra löng.
Spurður hvort þessi stóru gos sem urðu stuttu eftir landnám geti orðið aftur, svarar Sigmundur því játandi.
Hrinan í Vestmannaeyjum ekki endilega búin
Hann nefnir loks að varnargarðar bjargi ekki endilega málunum, eins og til dæmis í Heimaeyjargosinu árið 1973.
Þar hafi garðarnir eiginlega ekki komið að gagni.
„Það fer bara allt eftir hrauninu hvort að varnargarðurinn stoppar,“ segir Sigmundur og bætir við að þykkt hraun geti rutt varnargörðum í burtu.
Hann segir því að ef menn hefðu veigrað sér við að byggja á Völlunum á sínum tíma, þá hefði aldrei átt að byggja aftur upp í Vestmannaeyjum.
„Þá hefðu menn aldrei átt að láta sér detta það í hug. Það er ekkert sjálfgefið að goshrina sem hófst í Vestmannaeyjakerfinu 1963 sé búin.“
Menn verði einfaldlega að læra að búa með eldvirkninni sem Ísland býður upp á.
Heimild: Mbl.is