Home Fréttir Í fréttum Dýrafjarðargöng: Vegagerðin óskar eftir deiliskipulagi

Dýrafjarðargöng: Vegagerðin óskar eftir deiliskipulagi

257
0
Dýrafjarðargöng

Deiliskipulag við gangamunna Dýrafjarðarganga er nú í vinnslu. Það er verkfræðistofan Verkís sem fyrir hönd Vegagerðarinnar hefur óskað eftir heimild Ísafjarðarbæjar til að láta gera deiliskipulag við báða jarðgangamunna áætlaðra Dýrafjarðarganga. Erindið var tekið fyrir á fundi skipulags- og mannvirkjanefndar bæjarins fyrr í vikunni. Nefndin leggur til við bæjarstjórn að erindið verði samþykkt. Vegagerðin hefur ráðið teiknistofuna Eik á Ísafirði sem skipulagsráðgjafa við gerð deiliskipulagsins.

<>

Í erindi Verkís kemur fram að ákveðið sé að hefjast handa við gerð jarðganganna á næsta ári og vegna þess þurfi að koma upp vinnuaðstöðu beggja vegna ganganna í Dýrafirði og Arnarfirði. Þar er um að ræða mannvirki á borð við verkstæði, geymslur, svefnskála, skrifstofuhúsnæði og malbikunarstöð. Þó svo að þessi mannvirki verði einungis sett upp tímabundið, þurfi að vinna deiliskipulag sem taki mið af því að þar sé hægt að sækja um byggingarleyfi fyrir aðstöðu sem framkvæmdinni fylgja. Samkvæmt áætlun Vegagerðarinnar verða framkvæmdir við Dýrafjarðargöng boðin út síðla á þessu ári. Göngin munu stytta þjóðveginn um 27 kílómetra.

Heimild: Skutull.is