Home Fréttir Í fréttum Erfiður vetur verður Vegagerðinni kostnaðarsamur

Erfiður vetur verður Vegagerðinni kostnaðarsamur

68
0
Erfiður vetur verður Vegagerðinni kostnaðarsamur. Kostnaður við vetrarþjónustu var 28% hærri fyrstu tvo mánuði árs en í fyrra. Of lítil framlög til vegagerðar á undanförnum gera svo illt verra.

Götur höfuðborgarinnar eru illa farnar eftir erfiðan vetur en minna hefur verið fjallað um ástand þjóðvega. Síðustu þrír vetur hafa verið erfiðir í vetrarþjónustu Vegagerðarinnar og þessi vetur sýnu verstur. Kostnaður vegna vetrarþjónustu í janúar og febrúar í ár er um 28% meiri en í sömu mánuðum í fyrra. Í honum felst m.a. snjómokstur, hálkuvarnir, eftirlit og stjórnun.

<>

Vegakerfið sem Vegagerðin annast í viðhaldi er um 13 þúsund kílómetrar. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafultrúi Vegagerðarinnar, segir að sér sýnist margir veganna koma heldur verr undan þessum vetri en undanfarna vetur. Miklar framkvæmdir eru framundan og þær kosta sitt.

Verst er ástandið í umhleypingatíð, þegar vatn kemst undir yfirborð vega en frosnar og sprengir slitlagið á vegum.

Til að bæta gráu ofan á svart hefur olíuverð hækkað mikið á undanförnum árum og þar sem olían er notuð í malbikið hefur kostnaður við það aukist. Svo þótt fjárframlög hafi aukist að krónutölu hefur það alls ekki haldið í við kostnaðinn við malbikun.

„Fé til viðhalds hefur einfaldlega ekki verið nógu mikið til að viðhalda vegakerfinu eins og við viljum, kannski sumsstaðar niður í 60% af þörfinni“ segir G. Pétur Matthíasson en rætt er við hann í Samfélaginu um ástand vega og viðhald.

Ástand vega eftir veturinn þýðir að Vegagerðin þarf líklega að breyta forgangsröðun en G. Pétur segir ástand vega vel kortlagt og því liggi að mestu fyrir hvað þurfi að gera.

Á suðvesturhorninu hefur á undanförnum árum verið sett þunnt malbikslag yfir vegi í stað þess að fræsa og malbika upp á nýtt. Tilgangurinn hefur verið að halda gatnakerfinu gangandi án þess að kostnaður rjúki upp. En nú segir G. Pétur að slíkt sé ekki lengur hægt og væntanlega verði í öllum tilvikum að fræsa og malbika með þykku lagi í sumar.

Heimild: Rúv.is