Landsréttur hefur dæmt Húsasmiðjuna til að endurgreiða Nestaki 31,4 milljónir króna fyrir að hafa ofrukkað fyrir stál í nýja netagerðarverkstæðið í Neskaupstað. Dómurinn snéri við dómi héraðsdóms sem taldi Húsasmiðjuna einnig skaðabótaskylda vegna tafa á afhendingu stáls í verkið.
Nestak samdi við Húsasmiðjuna um kaup á 268 tonnum af stáli í lok apríl 2018 fyrir 150 milljónir króna með virðisaukaskatti. Samningurinn byggði á tilboði frá í desember 2017 og hafði verið greitt inn á verkið mánuði fyrir undirritunina.
Þá átti að reisa stálgrind húsið í júlí eða ágúst 2018 og klæða það í framhaldinu þannig það væri að fullu tilbúið 1. mars 2019.
Dómstólar ósammála um skaðabætur vegna tafa
Fljótlega eftir að samningur var kominn kom í ljós að tafir gætu orðið á verkinu. Um leið byrjuðu ásakanir að ganga á víxl um hver væri ábyrgur fyrir töfunum. Í stuttu máli sagt þá skellti Húsasmiðjan sökinni á Nestak fyrir breytingar á verkinu eftir að samningurinn var undirritaður.
Héraðsdómur hafnaði þeim rökum á þeim forsendum að Húsasmiðjan hefði álitið forsendur Nestaks það skýrar í upphafi að hægt væri að fara af stað. Þá hefðu breytingarnar ekki verið það umfangsmiklar að framleiðandinn þyrftu að reikna allt upp á nýtt fyrir sína vinnu. Ennfremur hefði Nestak alltaf svarað breytingum eða athugasemdum frá framleiðandanum innan tilskilins tímafrest.
Svo fór að stálið var afhent töluvert seinna en ráð var fyrir gert eða í húsið sjálft haustið 2018. Nestak taldi sig hafa orðið fyrir tjóni vegna þessa, meðal annars þurft að leigja tæki, halda úti aðstöðu og greiða undirverktökum lengur en ráð var fyrir gert. Húsasmiðjan hafnaði þessum lið og benti meðal annars á að tímaskýrslur Nestaks væru óljósar. Þar væri að finna liði eins og „taka til og sópa,“ „ýmislegt,“ „fokk“, og „skipta um sæti í Nissan.“
Héraðsdómur féllst á skaðabótaskylduna en Landsréttur vísaði þeim hluta málsins frá. Rétturinn taldi málatilbúnað Nestaks ekki uppfylla lög þar sem fjárhæð skaðabóta væri ekki tilgreind eða nægilega vel leiddar líkur að því hver hún gæti verið.
Meira stál ekki galli
Eins fór Nestak fram á bætur vegna galla þar sem Húsasmiðjan hefði afhent 294 tonn af stáli í húsið en ekki 268 tonn eins og tilboðið kvað um. Nestak sagði aukið magn hafa leitt til þess að undirverktaki hefði þurft að vinna meira og fyrirtækið þurft að gera upp við hann samkvæmt því.
Nestak taldi Húsasmiðjuna hafa gert fastverðstilboð. Dómarnir bentu hins vegar á að magn í samningunum og fastverðið væri til viðmiðunar. Þar væri líka einingaverð auk þess sem ljóst hafi verið af samningum og samskiptum fyrirtækjanna, bæði fyrir og eftir, að endanlegt magn myndi ráðast af lokahönnuninni. Húsasmiðjan var því sýknuð af þessum lið.
Miðað við einingaverð í samningi
Sá hluti krafna Nestaks, sem báðir dómstólarnir féllust á, snéru að tilboðsgerð fyrir svokallað secondary-stál, það er stál innan í húsið svo sem í stiga, handrið, palla og grindur. Nestak taldi það hafa verið innifalið í samningunum en Húsasmiðjan og stálframleiðandinn ekki. Nestak krafðist þess að fá það endurgreitt að fullu fyrir 66,2 milljónir króna en lagði fram varakröfu upp á 31,4 milljónir. Hún byggði á að miðað væri við einingaverðin í samningum.
Dómarnir töldu að samskipti vegna þess stáls hefðu hafist strax í júlí 2018 en ekki í janúar 2019, eins og Húsasmiðjan hélt fram. Húsasmiðjan hélt því fram að ný verð hefðu þá verið komin fram, sum þrefalt hærri, enda secondary-stálið aldrei verið inni í upphaflegu tilboðunum. Húsasmiðjan taldi Nestak í samskiptum sínum við framleiðandann hafa gengið að nýju tilboði.
Sannað þótti að Nestak hefði aðeins verið að samþykkja hönnun á þeim tímapunkti en gert skýra fyrirvara við verðin. Þá hefði Húsasmiðjan fyrr í ferlinu engu svarað þrátt fyrir að fá afrit af samskiptum milli Nestaks og stálframleiðandans.
Nestak greiddi Húsasmiðjunni þó fyrir stálið, síðast í október 2019, til að höggva á hnúta og fá síðasta stálið afhent. Sú greiðsla var gerð með fyrirvara um endurkröfu eða bótarétt. Þá hafði Nestak greitt 228,7 milljónir fyrir stál, 78,3 milljónum meira en það reiknaði upphaflega með. Málið fór svo formlega af stað vorið 2020.
Í dómi héraðsdóms er bent á að Húsasmiðjan hafi ekki gert aðra fyrirvara við tilboði en að fyrirtækið gæti ekki sett upp stálið. Þótt Nestak hafi verið í beinum samskiptum við framleiðandann vegna hönnunar þá hafi aldrei verið samningssamband þar á milli heldur Húsasmiðjan ábyrg fyrir að útvega stálið.
Í niðurstöðu Héraðsdóms segir að hvorki sé hægt að líta svo á að secondary-stálið hafi verið undanskilið í tilboðinu né það hafi verið inni í því. Húsasmiðjan beri hins vegar hallann af óljósum samningum og samskiptum og því beri að miðað við einingaverð fyrir það.
Það var forsenda varakröfu Nestaks og taldist Húsasmiðjan ekki hafa andmælt einingaverðinu, aðeins heildarmagninu og að flutningskostnaður ætti að vera sér. Af samskiptum sem lágu fyrir dóminum var klárt að hann átti að vera meðtalinn.
Húsasmiðjan var því dæmd til að greiða Nestaki 31,4 milljónir ásamt dráttarvöxtum sem reiknast frá 4. nóvember 2019 til greiðsludags.
Lokaúttekt á nýju netagerðinni af hálfu verkkaupa fór fram í desember 2019, um tíu mánuðum síðar en upphaflega var gert ráð fyrir.
Heimild: Austurfrett.is