Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur haft í nógu að snúast en 63 mál voru bókuð á milli 05.00 í morgun og 17.00 í dag. Eitthvað var um deilur, slys og grunsamlegar mannaferðir en sérstakasta tilkynning dagsins er eflaust tilkynning um skemmdarverk þar sem bifreið í Mosfellsbæ er sögð hafa verið kramin með gröfu.
Að því er fram kemur í dagbók lögreglu er gerandi skemmdarverksins ókunnur en tilkynningin barst lögreglu klukkan 08.39.
Þá barst lögreglu tilkynning klukkan 13.30 um mann sem neitaði að yfirgefa stofnun í miðbæ Reykjavíkur og ók lögregla honum heim til sín í kjölfarið.
Einnig var tilkynnt um deilur á milli aðila á sama svæði klukkan 08.40 í morgun en málið er sagt hafa verið afgreitt á vettvangi. Einnig barst tilkynning um minniháttar líkamsárás til lögreglustöðvarinnar sem sér um Breiðholt og Kópavog klukkan 08.21. Atvikið er sagt hafa verið afgreitt á vettvangi.
Heimild: Mbl.is