Home Fréttir Í fréttum Nýr spítali við Hringbraut er á skjön við nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar

Nýr spítali við Hringbraut er á skjön við nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar

146
0
Drög að nýjum landspítala.

Nýr spítali við Hringbraut er á skjön við nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar og er auk þess allt of stór í samhengi við nærliggjandi umhverfi, segir arkítekt sem telur að nýjum spítala væri best komið niður á Keldum.

<>

Hilmar Þór Björnsson, sem skrifað hefur um arkitektúr og skipulagsmál á Eyjuna undanfarin ár, var gestur í útvarpsþættinum Samfélagið á Rás 1 í vikunni þar sem hann ræddi hugmyndir forsætisráðherra um viðbyggingu við Alþingishúsið og færslu nýja spítalans í Efstaleiti.

Hilmar Þór telur hugmyndina um að taka 100 ára gamla teikningu og byggja eftir henni nýtt alþingishús á engan hátt skynsamlega, þótt hann taki undir þau rök að byggja eigi á sérstakan hátt í Kvosinni þannig að miðborgin haldi einkennum sínum.

Hins vegar telur hann að svo margar forsendur hafi breyst frá því að ákveðið var að byggja nýjan spítala við Hringbraut að skynsamlegt sé að leita að nýrri og hentugri staðsetningu.

Rifjar Hilmar Þór upp að árið 2001 hafi verið ákveðið að sameina Landspítalann og Borgarspítalann og voru fengnir sérfræðingar til að meta staðarval og varð Hringbrautin fyrir valinu. Þá vógu þyngst þættir eins og nálægð við Háskóla Íslands og styrking miðborgarinnar. Á þessum sama tíma var ákveðið að ráðast í byggingu sjúkrahússins fyrir söluandvirðið af Landsímanum.

Vinnur gegn samgöngustefnu aðalskipulags

Hilmar Þór segir að síðan þá hafi í raun og veru allt breyst, nema sú ákvörðun að byggja spítalann á Hringbraut.

Fyrir það fyrsta „hurfu“ peningarnir sem nota átti í byggingu sjúkrahússins og því þyrfti að sníða plönin niður og minnka byggingamagnið. Í öðru lagi hafi menntamálaráðuneytið árið 2007 birt nýja stefnu sem segir að nýjar byggingar eigi að taka mið af nærliggjandi umhverfi sem geri það að verkum að endurskoða hefði þurft Landspítalaverkefnið aftur.

Loks bendir Hilmar Þór á að í fyrra hafi verið samþykkt nýtt aðalskipulag Reykjavíkurborgar.

” Og ég tel að þetta plan sem þarna er sé á skjön við nýja aðalskipulagið. Þar kemur einkum til samgöngustefnan. Það er þannig að aðalskipulagið gerir ráð fyrir að byggja mikið af íbúðum í vesturhluta borgarinnar til þess að mæta öllum atvinnutækifærunum, það er svo mikið að atvinnutækifærum að menn vilja gjarnan að fólk búi nálægt vinnustað sínum. Það er mjög skynsamlegt, þannig að menn geti hjólað og gengið til vinnu sinnar. Þetta er alveg rjómagott aðalskipulag. En eitt tækifæri til þess að mæta þessari stefnu væri að færa þau atvinnutækifæri austar í borgina. Á Landspítalanum vinna á milli fimm og sex þúsund manns og það hefði verið alveg upplagt að færa þessi atvinnutækifæri austar í borgina til þess að mæta þessu.“

Hilmar Þór bendir enn fremur á að í aðaskipulaginu sé að finna samgönguás sem liggja eigi frá Vesturbugt og alla leið að Keldum. Ekki hafi farið mikið fyrir þessari „gríðarlega sterku“ hugmynd sem gera á Reykjavíkurborg að svokallaðri línuborg.

”Ef eitthvað á að vera við samgönguásinn, þá eru það stórir, mannfrekir vinnustaðir.“

Hilmar furðar sig jafnframt á því að þrátt fyrir þá miklu samstöðu að byggja nýtt sjúkrahús, þar sem stjórnmálamenn, læknar og almenningur séu á einu máli um nauðsyn þessarar framkvæmdar, þá hafi enn ekkkert gerst í þessum málum.

”Og nú eru liðin 14 ár og það er ekki farin skófla í jörðina […] Ég held að það sé út af því að menn eru ekki ánægðir með þá áætlun sem á borðinu liggur.“

Ekki skipulagsrök að húsið lekur

Eftir að forsætisráðherra viðraði hugmynd sína um að byggja nýtt sjúkrahús í Efstaleiti lýsti forstjóri Landspítalans áhyggjum sínum af því að ný staðsetning myndi tefja enn frekar fyrir byggingu nýs spítala. Hilmar Þór telur að ekki eigi að blanda umræðum um byggingu nýs spítala og ástand núverandi húsnæðis Landspítalans.

”Helstu rökin fyrir því að byggja þarna núna eins og sakir standa eru einmitt þessi, að það sé orðið of seint. Okkur liggur á. Þetta var líka sagt fyrir fimm árum síðan og ekkert gerist. Það eru ekki skipulagsrök að húsið lekur eða það séu einhverjir sveppir í gluggunum. Það eru viðhaldsvandamál sem að á ekki að blanda inn í þessa umræðu og það er beinlínis dónaskapur gagnvart borgarlandslaginu að tala um fúa og brotnar rúður í þessu samhengi.“

Í þessu samhengi gagnrýnir Hilmar Þór að á sama tíma og læknadeilan stóð sem hæst hafi verið birtar síendurteknar fréttir af bágu húsnæði Landspítalans. Augljóst er að á bak við þessar fréttir hafi staðið „spin doktor“.

”Þetta hefur bara ekkert með skipulag að gera. Þetta er bara lélegt viðhald og slæm umgengni.“

Hilmar Þór segir jafnframt að það geti ekki staðist að ferlið taki 10 til 15 ár verði spítalanum fundin ný staðsetning. Áætlar hann að skipulags- og hönnunarferli taki í allt fimm ár. Í millitíðinni sé hægt að fara í ákveðinn biðleik sem felst í að byggja mun minna en áætlanir standa til, að „gíra niður“ verkefnið. Þannig væri hægt að ráðast í framkvæmdir strax, rask yrði minna, auðveldara yrði að ná í fjármagn og í millitíðinni mætti gera langtímaáætlun um nýjan spítala.

”Ég held að drátturinn borgi sig. Ég held jafnvel að ef það verður farinn þessi biðleikur þá verðin engin töf.“
Gott svæði að Keldum

Aðspurður út í byggingamagnið við nýjan spítala á Hringbraut telur Hilmar Þór það allt of mikið.

”Þetta er bara eins og með Öskubusku, fóturinn kemst bara ekki í skóinn. Þá verður maður að fara að kaupa sér stærri skó. Þá verður bara að fara og finna land sem að tekur við öllu þessu.“

Hilmar Þór sagði hugmynd Sigmundar Davíðs um Efstaleiti vel hugsanlega. Hún sé skárri en núverandi kostur en á móti kemur að hún fellur ekki heldur að borgarskipulaginu. Staðsetningin yrði fjarri samgönguæðum og ávinningurinn ekki sá sami. Sjálfur telur Hilmar Þór að land ríkisins við Keldur sé hentugast. Ekki bara myndi sú staðsetning smellpassa í samgönguásinn heldur sé landið opið og framkvæmdir ættu að ganga greiðlega.

Aðspurður hvort það þýði ekki að spítalinn verði of langt frá flugvellinum bendir Hilmar Þór á að staða hans sé nú þegar í limbói.

”Verðum við ekki að gera ráð fyrir að flugvöllurinn fari? Ég er ekki hlynntur því en það stefnir allt í þá áttina og þá skiptir ekki máli hvar sjúkrahúsið er.”

Heimild: Eyjan.is