Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu er búið að rífa hluta af gamla slippnum við Hafnarfjarðarhöfn sem brann í gær og verður afgangurinn rifinn í dag.
Fyrirtækið Fura mun sinna því verkefni fyrir hönd tryggingafélags, að sögn Lárusar Steindórs Björnssonar, varðstjóra hjá slökkviliðinu.
Slökkvistarfinu er lokið og verður ekkert viðbragð á staðnum í dag nema eldur komi upp. Slökkviliðið var að til klukkan þrjú í nótt og telur sig hafa slökkt allar glæður.
Að sögn Lárusar Steindórs brunnu þrjár byggingar sem eru samfastar og eru þær allar ónýtar. Næsta bygging við hliðina, þar sem siglingaklúbbur er til húsa, slapp alveg.
Tæknideild lögreglunnar mun rannsaka vettvanginn í dag. Óljóst er um eldsupptök.
Heimild: Mbl.is