Bæjarráð Mosfellsbæjar hefur samþykkt úthlutunarskilmála og lágmarksverð lóða í 5. áfanga Helgafellshverfis. Innan 5. áfanga verða fjölbreyttar gerðir íbúða sem mynda blandaða byggð í hlíð á móti suðri.
Í þessari úthlutun er óskað eftir tilboðum í byggingarrétt annars vegar fjögurra fjölbýla með 12 íbúðum hvert, alls 48 íbúðir, og hins vegar sjö raðhúsa, alls 24 íbúðir.
Hverri lóð verður úthlutað til þess aðila sem gerir hæst tilboð í viðkomandi lóð, enda uppfylli viðkomandi aðilar skilyrði um fjárhagslegt hæfi sem tilgreind eru í 3. gr. úthlutunarreglna Mosfellsbæjar.
Bæði einstaklingar og lögaðilar geta lagt fram tilboð í byggingarrétt lóða en hver umsækjandi getur þó aðeins lagt fram eitt tilboð í hverja lóð.
Nánari upplýsingar eins og mæliblöð, hæðarblöð, greinargerð deiliskipulags og uppdrættir er að finna á kortavef Mosfellsbæjar.
Tilboð í lóðir skulu berast Mosfellsbæ fyrir miðnætti þann 4. maí 2023 og verða eingöngu móttekin með rafrænum hætti í gegnum þjónustugátt sveitarfélagsins.
Áformað er að síðari úthlutun lóða á svæðinu, sem eru að mestu einbýlishúsa- og parhúsalóðir, fari fram næsta haust. Sú úthlutun verður auglýst síðar.
Allar nánari upplýsingar um úthlutun lóðanna er að finna á slóðinni mos.is/lodir og hjá Arnari Jónssyni, forstöðumanni þjónustu- og samskiptadeildar og Kristni Pálssyni skipulagsfulltrúa í síma 525-6700.