Fasteignaverð í Vestmannaeyjum hefur hækkað um 70 prósent frá bankahruni. Á sama tíma hefur verðið á Akureyri og Akranesi hækkað um ca. 15 prósent. Þetta kemur fram í nýrri Hagsjá Landsbankans (. Þar segir að mikil tenging við sjávarútveg og sterkt og stöðugt atvinnulif skýri mikinn hluta af þeirri þróun sem átt hefur sér stað í Vestmannaeyjum.
„Kaupmáttur, atvinnu- og tekjustig hefur jafnan mikil áhrif á fasteignaverð og þessar tölur staðfesta það“.
Verðið hefur hins vegar lækkað um 6,5 prósent í Árborg og um 5,4 prósent í Reykjanesbæ.
Langhæsta fasteignarverðið í höfuðborginni
Fasteignaverð er sem fyrr langhæst á höfuðborgarsvæðinu. Það hefur einnig hækkað mikið að undanförnu. Alls hefur fasteignaverð á svæðinu hækkað um 10,8 prósent á síðustu tólf mánuðum.
Meðaltal af verði fjölbýlis og sérbýlis sýnir að fermetraverð fasteigna á Akureyri var um 70 prósent af verðinu í Reykjavík í lok ársins 2014. Fermetraverðið í hinum bæjunum sem úttekt Hagsjárinnar náði til er töluvert lægra, eða ríflega helmingur þess sem gerist í Reykjavík. Árið 2008 var fasteignaverð í Eyjum […] töluvert lægra en í þeim bæjum sem hér er miðað við, en vegna mikillar hækkunar frá þeim tíma, er það orðið svipað. Þetta er sannarlega mikil breyting frá því sem var“.