Home Fréttir Í fréttum Ekki reynt á þol bygginga í stórum skjálfta á höfuðborgarsvæðinu

Ekki reynt á þol bygginga í stórum skjálfta á höfuðborgarsvæðinu

124
0
Nýbyggingar í ystu hverfum höfuðborgarsvæðisins. Hér sést Skarðshlíðarhverfi í Hafnarfirði árið 2022. RÚV – Kristján Þór Ingvarsson

Byggingar á höfuðborgarsvæðinu eiga að þola jarðskjálfta mjög vel segir jarðskjálftaverkfræðingur. Prófessor segir ekki hægt að segja það með vissu því að ekki hafi reynt á það, en í Suðurlandsskjálftunum hafi hús þar reynst vel.

<>

Langt á milli hönnunar og bygginga í Tyrklandi
Skelfileg myndskeið af byggingum að hrynja í Tyrklandi fyrir tæpum þremur vikum líða fólki líklega seint úr minni.

„Þau hrundu eins og pönnunkökur,“ segir Rajesh Rupakhety prófessor í byggingaverkfræði við Háskóla Íslands og sérfræðingur í jarðskjálftaverkfræðiþ

„Almennilega hönnuð bygging ætti aldrei að hrynja svona. Það eru greinileg merki um að mjög langt er á milli þess hvernig byggingarnar eru teiknaðar og hvernig þær voru byggðar,“ segir hann.

Húsin í Suðurlandsskjálftunum þoldu álagið mun betur en þau áttu að þola
En hvernig er ástandið hér? Suðurlandsskjálftarnir árin 2000 og 2008 voru af stærðinni 6,2 til 6,8 en þar er byggð næst upptakasvæðum á landinu. Lengra er í byggð frá brotabeltinu út fyrir Norðurlandi. Í Suðurlandsskjálftunum þoldu húsin skjálftana mjög vel svona alla jafna.

„Húsin þoldu jarðhræringar sem voru næstum tvöfalt meiri en þau voru hönnuð til að þola í Hveragerði, til dæmis,“ segir Rupakhety.

Enn beðið þess stóra nærri höfuðborgarsvæðinu
Brotabelti Suðurlands nær út Reykjanesskaga. Öflugustu jarðskjálftarnir hafa orðið í Brennisteinsfjöllum, 1929 mældist einn 6,2 og 1968 skjálfti af stærðinni sex.

„Hérna fyrir sunnan borgina, það sem er næst höfuðborgarsvæðinu, þar er talað um að þeir verði svona sex til sex og hálfur,“ segir Benedikt Halldórsson sérfræðingur í tæknilegri jarðskjálftafræði á Veðurstofunni og rannsóknaprófessor í jarðskjálftaverkfræði við Háskóla Íslands.

Enn er von á skjálfta úr Brennisteinsfjöllum því að þótt jörð hafi skolfið lengi á Reykjanesskaga þá hafa Brennisteinsfjöll haldið sig til hlés.

Byggingastaðlar eru mjög strangir
Stærð skjálftans er ekki allt, heldur ekki síður fjarlægð frá byggð. Litlir skjálftar geta líka valdið talsverðum áhrifum séu þeir nærri byggð. Stærð jarðskjálftahreyfinganna á hverjum stað er það sem horft er til.

„Alveg eins og þegar steini er hent í vatn að þá eru stærstu bylgjurnar næst og svo fjara þær út,“ segir Benedikt.

Hvernig þola þessi háhýsi þetta sem nú er verið að byggja á höfuðborgarsvæðinu?

„Ég held að það sé hægt að fullyrða að þau eigi að þola svona hreyfingar mjög vel. Staðlarnir í dag eru mjög strangir og allur frágangur og umsjón með byggingaframkvæmdum eru strangar.“

Dálítil óvissa á höfuðborgarsvæðinu
„Í raun hefur ekki reynt á byggingar í Reykjavík því ekki hefur orðið stór skjálfti nálægt Reykjavík. Í þeim skilningi er því dálítil óvissa,“ segir Rupakhety.

Á móti, segir hann, þá verða áhrif jarðskjálfta á höfuðborgarsvæðinu ekki eins mikil og á Suðurlandsundirlendinu því þar er byggðin fjær upptökunum.

Sterkari byggingar næst upptökum skjálfta
Og elstu byggingarnar eru fjær upptökunum en þær nýjustu; þannig verða áhrif stórskjálfta minni í miðborginni en í ystu byggðum höfuðborgarsvæðisins þar sem byggingarnar eru oftast úr mikið járnbentri steinsteypu.

„Þær eru þá sterkari í úthverfunum þar sem byggðin hefur verið að mjakast svona undanfarna áratugi. En á móti kemur að þá eru þær byggingar nýrri og því miðað við strangari kröfur,“ segir Benedikt.

Heimild: Ruv.is