Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, er einn þeirra sem gerir alvarlega athugasemd við fyrirhugaða viðbyggingu við leikskólann Sælukot. Skipulagsfulltrúi segir ekkert óeðlilegt að byggt sé við hús í áföngum.
Umhverfis-og skipulagsráð hefur samþykkt að byggja megi einnar hæðar, steinsteypta viðbyggingu með hefðbundnu timburþaki við leikskólann Sælukot sem stendur við Þorragötu 1. Á leikskólanum eru 64 börn, hann er rekinn eftir Ananda Manga heimspeki-og uppeldisstefnunni og börnin stunda innhverfa íhugun og borða einungis grænmetisfæði.
Viðbyggingin, sem er um 180 fermetrar, var grenndarkennt í nóvember og tveir eigendur fasteigna við Hörpugötu gerðu alvarlegar athugasemdir við áformin.
Aðalsteinn Leifsson, ríkissáttasemjari, var annar þeirra. Hann segir í athugasemd sinni að viðbygging leikskólans standi mjög nærri vinnustofu sem sé hluti af húsi fasteign hans. „Gluggar viðbyggingarinnar eru í seilingarfjarlægð frá glugga vinnustofunnar,“ bendir Aðalsteinn á í athugasemd sinni.
Hann segir leikskólann hafa verið stækkaðan verulega frá upphaflegu skipulagi. Hæð hafi meðal annars verið byggð ofaná upphaflega byggingu en ekki hafi verið gerð athugasemd við þá stækkun í „ljósi samfélagslegs gildis leikskóla“. Sú viðbygging hafi þó tekið mikið útsýni. „Þessi tillaga er hins vegar verulega íþyngjandi fyrir íbúa Hörpugötu 8 og á engan hátt ásættanleg.“
Annar íbúi við Hörpugötu er öllu hvassyrtari en Aðalsteinn í sinni umsögn og segir þetta þriðju viðbygginguna á stuttum tíma þar sem íbúar er beðnir um athugasemd. „Síðasta viðbygging skólans eyðilagði stóran hluta af sjávarsýninni,“ segir íbúinn.
Ekkert tillit hafi verið tekið til athugasemda og leikskólinn fengið að byggja stóra viðbyggingu „nánast beint fyrir framan stofugluggann okkar.“ Þá þykir honum stjórnendur Sælukots vera yfirgangssamir nágrannar. „Er þetta ekki bara komið gott hjá þeim af viðbyggingum?“
Skipulagsfulltrúi Reykjavíkurborgar sagði þessa nýju viðbyggingu aðeins vera eina hæð, hún stæði þremur metrum frá lóðamörkum og ætti því ekki að skerða útsýni meira en núverandi byggingar. „Ekki er óeðlilegt að byggt sé við hús í nokkrum áföngum,“ sagði í umsögn hans. Ekkert óeðlilegt væri heldur við staðsetningu viðbyggingarinnar og lagði hann því til að byggingarleyfið yrði samþykkt óbreytt.
Heimild: Ruv.is