Home Fréttir Í fréttum Raka­skemmdir í fimm af skólum Reykja­nes­bæjar

Raka­skemmdir í fimm af skólum Reykja­nes­bæjar

131
0

Raka­skemmdir og mygla heldur á­fram að finnast í skólum landsins. Í Reykja­nes­bæ eru fimm skólar skemmdir en bærinn mun nota tæki­færið og gera frekari stækkanir og lag­færingar.

<>

Raka­skemmdir hafa fundist í fimm skólum í Reykja­nes­bæ, tveimur grunn­skólum og þremur leik­skólum. Kjartan Már Kjartans­son, bæjar­stjóri, gerir ráð fyrir að fram­kvæmdir muni taka langan tíma en sam­hliða verður farið í stækkanir og frekari lag­færingar á skólunum.

Skólarnir sem um ræðir eru grunn­skólarnir Myllu­bakka­skóli og Holta­skóli og leik­skólarnir Garða­sel, Heiðar­sel og Gimli. Sam­kvæmt Kjartani eru raka­skemmdirnar og myglan lang­mest í grunn­skólunum tveimur. Hefur hluta skólanna verið lokað og kennsla færð annað, til að mynda flutti ung­linga­deild Holta­skóla í menningar­húsið Hljóma­höll í vikunni.

„Við erum að bregðast við öllum þessum grun með sýna­töku og að­gerðum ef að í ljós kemur að um al­var­legar skemmdir er að ræða,“ segir Kjartan Már, en rann­sóknir á leik­skólunum eru mun skemur á veg komnar en í grunn­skólunum.

Við­gerðir eru þegar hafnar í grunn­skólunum. Nokkuð er síðan skemmdirnar fundust í Myllu­bakka­skóla og greindi Frétta­blaðið frá því í haust að farga hafi þurft öllum bóka­kosti bóka­safns skólans vegna myglu.

„Þetta er 70 ára gömul bygging sem stendur mjög lágt í landinu,“ segir Kjartan Már um Myllu­bakka­skóla. Hafi byggingar­reglu­gerðir þess tíma ekki gert jafn ríkar kröfur um jarð­vegs­skipti og nú er. Við hliðina á skólanum stendur skrúð­garður bæjarins og þar er tjörn. „Lík­lega er vot­lendi undir Myllu­bakka­skóla,“ segir Kjartan og rakinn leiti upp í bygginguna.

Marg­vís­legar aðrar á­stæður gætu legið að baki skemmdunum, við­hald í gegnum árin kann að hafa verið ó­full­nægjandi og svo hafa lekir gluggar og þök verið að koma í ljós.

Skemmdirnar í leik­skólunum eru minni og enn þá er unnið að því að greina þær betur. Kjartan Már nefnir að Garða­sel sé 50 ára norskt timbur­hús, sem reist var eftir Vest­manna­eyja­gosið þegar fólk flúði upp á land. „Við erum að rann­saka hvort að jarð­vegurinn undir skólanum hafi verið nægi­lega vel undir­búinn. Á þessum tíma var unnið á stuttum tíma og menn voru að flýta sér til að bregðast við,“ segir hann.

Að­spurður um kostnað segir Kjartan að þetta verði dýrt. „Þetta eru háar fjár­hæðir,“ segir hann. „Örugg­lega mun þetta hlaupa á hundruð milljónum króna, að minnsta kosti, vegna þess að við munum nota tæki­færið og fara í frekari lag­færingar í leiðinni, að minnsta kosti í Holta­skóla og Myllu­bakka­skóla.“ Einnig verði farið í stækkanir á skólum. Reiknar hann með því að fram­kvæmdirnar taki 3 til 4 ár. „Að komast fyrir mygluna sjálfa á að­eins að taka nokkrar vikur til við­bótar,“ segir hann.

Heimild: Frettabladid.is