Framkvæmdir við nýjan Landspítala eru á áætlun að sögn sviðsstjóra framkvæmdasviðs verkefnisins og hefur frostið ekki tafið steypuvinnu. Þá er verkið nærri fjárhagsáætlun, en verðhækkun á stáli hefur að einhverju leyti gengið til baka.
Nú er unnið að því að steypa upp meðferðakjarna nýs Landspítala. Það er verk af stærra taginu því í það fara 55 þúsund rúmmetrar af steypu og ellefu þúsund tonn af bendistáli. Verkið er á áætlun þótt erfitt hafi orðið að fá stál í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, en nánast allt bendistál kemur frá Belarús, en vel tókst að taka á þeim vanda, að sögn Ásbjörns Jónssonar sviðsstjóra framkvæmdasviðs.
Þá er uppsteypuverkið ekki fjarri fjárhagsáætlun en verð á stáli hækkaði vegna stríðsins í Úkraínu, sem þó hefur að einhverju leyti gengið til baka.
Kaldur vetur og kaldasti desember í Reykjavík í rúma öld hafa ekki haft tafir í för með sér varðandi steypuvinnuna. Ásbjörn segir að fyrst og fremst séu erlendir iðnaðar- og verkamenn við vinnu, þeir hafi farið í 2-3 vikur heim yfir jólin og gert hafi verið ráð fyrir því í áætlunum.
„Um miðjan desember dró verulega úr því sem átti að gera hér á staðnum, þannig að það hitti nokkurn veginn saman um það að þegar hér byrjaði frjósa allverulega þá var hvort eð var verið að draga úr framkvæmdum,“ segir Ásbjörn. Þá hafi haustið og fyrri partur veturs verið hagstæður.
Meðferðakjarninn er byggður þannig að nú er verið að steypa hæðirnar, gólf og súlur, en útveggirnir sem framleiddir verða erlendis og síðan boltaðir utan á húsið, eru næsta stóra verkefni á eftir uppsteypunni.
„Við erum búin að bjóða út útveggina, það er alveg risasamningur líka og það er á hönnunarborðinu núna. Næsta sumar byrjar framleiðslan á útveggjunum og síðan næsta haust þá byrjar uppsetning á útveggjunum og auðvitað lokun á húsinu, bæði þak og útveggir.“
Þá standa yfir framkvæmdir vegna bílastæða- og tæknihúss og uppsteypa þess að hefjast. Einnig eru framkvæmdir vegna rannsóknahúss en uppsteypa þess verður boðin út á næstu mánuðum.
Heimild: Ruv.is