Hið opinbera stendur í miklum framkvæmdum í miðborginni. Talið er að um 20 þúsund fermetrar af eldra atvinnuhúsnæði losni þegar stofnanir og opinber fyrirtæki flytji í nýtt húsnæði.
Raunverð atvinnuhúsnæðis er nú við toppinn sem náðist árið 2008 samkvæmt Hagvísum Seðlabanka Íslands. Þó er settur fyrirvari við þessar tölur enda um að ræða vegið meðaltal viðskipta með iðnaðar-, verslunar- og skrifstofuhúsnæði.
Oft á tíðum eru fáar mælingar bak við hvert gildi og erfitt getur verið að bera eiginleika húsnæðis saman vegna ólíks aldurs og staðsetningar. Þá hefur verið nokkuð um að aðilar skipti á atvinnuhúsnæði eða lóðum og einnig er nokkuð um að tengdir aðilar eigi í viðskiptum með atvinnuhúsnæði, þar sem langtíma leigusamningur fylgir í kaupunum. Á þetta til að mynda við í tilfelli Kaldalóns og Skeljar fjárfestingafélags, svo dæmi sé tekið.
Jákvæðar horfur
Í ritinu fjármálastöðugleiki, sem Seðlabankinn gaf út í september, kom fram að vísitala raunverðs atvinnuhúsnæðis mældist 17,7% yfir metinni langtímaleitni um mitt síðasta ár og hafði þá hækkað um 15,3% undanfarna tólf mánuði.
Í ritinu segir að rekstur stóru atvinnuhúsnæðisfélaganna, Eikar, Regins og Reita, gefi vísbendingar um nokkuð jákvæðar horfur á atvinnuhúsnæðismarkaði. Ávöxtun fjárfestingareigna hjá félögunum þremur hafi mælst 5,3% á fyrri helmingi ársins og arðsemi eiginfjár mikil í sögulegu samhengi.
Ennfremur segir að félögin hafi haldið áfram að færa sér til tekna hækkað virðismat fjárfestingareigna, en jákvæðar matsbreytingar það sem af sé ári skýrist helst af hækkun almenns verðlags.
Heimild: Vb.is