Home Fréttir Í fréttum Ætla að reisa fimm stjörnu lúxushótel við Skálafell

Ætla að reisa fimm stjörnu lúxushótel við Skálafell

292
0
„Þetta eru stórhuga áform, og þetta verður stór vinnustaður,“ segir Dagur B. Eggertsson. Fréttablaðið/Samsett

Undirbúningur að deiliskipulagi fyrir nýtt glæsihótel við Skálafell er hafinn, en það verður ný vídd í ferðaþjónustunni hér á landi, að sögn borgarstjóra sem undirritaði viljayfirlýsingu um uppbygginguna fyrr í vikunni.

<>

Forráðamenn malasíska félagsins Berjaya Land Berhad, sem keyptu Icelandair hótelin af samnefndu flugfélagi árið 2019, stefna að því að reisa rúmlega tvö hundruð herbergja fimm stjörnu lúxushótel í landi Stardals við Skálafell á næstu misserum.

Viljayfirlýsing liggur fyrir á milli Reykjavíkurborgar og hótelkeðjunnar um kaup á svokölluðu Kýrhólslandi, sem er hluti Stardalsins, að sögn Dags B. Eggertssonar borgarstjóra en hún var undirrituð í byrjun vikunnar. Hann segir undirbúning að deiliskipulagi fyrir svæðið þegar vera hafinn.

„Þetta eru stórhuga áform, og þetta verður stór vinnustaður,“ segir Dagur sem fullyrðir jafnframt að um nýja vídd í ferðaþjónustu hér á landi verði að ræða. „Hótelið allt verður afar glæsilegt með alls konar afþreyingarkostum, en meðal annars verður reist stórt baðlón á staðnum – og í kring verða heilsárs útivistarmöguleikar sem munu verða opnir almenningi jafnt sem hótelgestum.“

Staðsetning hótelsins er í jaðri græna trefilsins í Esjuhlíðum og uppbygging þess er að sögn borgarstjóra háð skilyrðum af hálfu borgaryfirvalda um að starfsemin falli vel að náttúrunni og verði á allan máta umhverfisvæn.

„Þetta eru að mínu mati mikil tíðindi í ferðaþjónustunni,“ segir Dagur, „en með tilkomu Edition-hótelsins við Austurhöfn og þessa nýja hótels við Skálafell eru Íslendingar að komast á kortið hjá betur borgandi ferðamönnum í heiminum sem mun örugglega bæta hag og kjör starfsmanna í ferðaþjónustunni hér á landi,“ segir Dagur B. Eggertsson.

Heimild: Frettabladid.is