Elías Guðmundsson kynnti á miðvikudaginn hugmyndir um íbúðabyggð og lúxushótel í Hjarðardal ytri í Önundarfirði.
Fundurinn fór fram á Holt Inn og var vel sóttur að sögn Elíasar „Það var fullt hús og ég heyrði ekki annað en að það væri mikil stemning fyrir þessu. Verkefnið mun halda áfram en hvort einhverjar breytingar verði á því mun koma í ljós.“
Hugmyndirnar sem Elías hefur unnið að fela í sér 36 lóðir fyrir einbýlishús og lúxushótel sem gæti verið með 40-50 herbergjum. Hann hefur unnið að verkefninu fyrir hönd landeigenda og vildu þau á þessum tímapunkti kynna Vestfirðingum hugmyndirnar.
„Í tengslum við uppbyggingu í laxeldi er þörf fyrir 250-300 íbúðir á svæðinu og samkvæmt spám gæti fjölgað um þúsund manns á norðanverðum Vestfjörðum. Þá vaknar sú spurning hvar sé hægt að bregðast við þeirri þörf.
Þetta væri að lágmarki þriggja ára ferli frá hugmynd og þar til þetta gæti orðið að veruleika ef mið er tekið af ferlinu í kringum leyfisveitingar, skipulagsferli og framkvæmdir. Sjálfur er ég bara að hjálpa eigendum landsins við að þróa þetta áfram og ég mun ekki framkvæma þetta. Leit að áhugasömum aðilum stendur yfir,“ segir Elías.
„Þetta byrjaði bara sem skemmtilegt spjall á kaffistofunni hjá mér og eigendum að þessu landi. Ég hef stundað fasteignaviðskipti og fasteignaþróun og tók að mér að skoða landið þegar þau hættu sauðfjárbúskap. Við vorum sammála um að þarna væri töluvert gott land til að byggja á en landrými á norðanverðum á Vestfjörðum er af frekar skornum skammti.“
Varðandi hótelið segir Elías að ýmislegt sé í farvatninu í ferðaþjónustu á norðanverðum Vestfjörðum.
„Ég kynnti hugmynd um hótelbyggingu sem yrði fyrsta alvöru lúxushótel Vestfirðinga og yrði þá byggt út við sjóinn í takti við Holtsbryggju. Landeigendur voru að skoða hugmyndir um hótel á landinu en þessi hugmynd gengur lengra til að nýta landið betur.
Til stendur að bjóða upp á sjóböð í Önundarfirðinum en þetta svæði gæti verið á leið í mjög áhugaverða uppbyggingu,“ segir Elías sem er í námi í arkitektúr við LHÍ en var lengi framkvæmdastjóri Fisherman.
Heimid: Mbl.is