Færeysk yfirvöld hafa tilkynnt að árið 2025 verði nýr þjóðarleikvangur handboltans þar í landi tekinn í gagnið. Um er að ræða höll sem tekur 2700 manns í sæti á handboltaleiki.
Hægt verður að nýta höllina fyrir tónleikahald þar sem 3600 sæti verða fyrir sitjandi en möguleikinn á 4600 áhorfendum ef staðið er í höllinni.
Talið er að kostnaður á verkefninu verði 4,6 milljarðar íslenskra króna.
Líkt og Íþróttadeild RÚV fjallaði um í síðasta mánuði er ljóst að hluti stúkunnar í Laugardalshöll er ónýtur. Því spilar handboltalandslið Íslands ekki á vellinum í ár en landslið í körfubolta geta nýtt sér hana, með herkjum þó. Spilað hefur verið á undanþágum frá alþjóðlegum íþróttasamböndum í höllinni síðustu ár. Þá missir Ármann, körfuknattleiksfélagið í Laugardal, æfingaaðstöðu sína þegar landslið æfa og spila í höllinni.
Síðasti kappleikur landsliðanna í Laugardalshöll var leikur karlalandsliðsins í handbolta gegn Litháen í nóvember 2020. Eftir það varð stórfelldur vatnsleki í höllinni þar sem þúsundir lítrar af heitu vatni láku á gólfið.
Áform eru um að ný þjóðarhöll rísi í Laugardalnum og áætluð verklok eru 2025. Í síðasta mánuði voru hins vegar blikur á lofti um hvort að verkefninu verði frestað. Formenn HSÍ og KKÍ eru þó bjartsýnir um að ráðherrar standi við gefin loforð.
Þá hefur Gunnar Einarsson, formaður nýskipaðrar framkvæmdanefndar um þjóðarhöllina, sagt að enn sé unnið að þeirri áætlun að höllin rísi árið 2025.
Frétt RÚV 22. september –Sannfærður um að ráðherrar standi við gefin loforð
Umræða um nýja þjóðarhöll hefur reglulega gossað upp í þó nokkurn tíma, en fyrst bar á henni árið 1994, en Laugardalshöllin var byggð 1965.
Fyrir sveitastjórnarkosningar í vor rituðu ráðherrar og borgarstjóri undir viljayfirlýsingu um að íþróttahús skyldi rísa í Laugardalnum árið 2025.
Babb í bátinn?
Mikið kurr varð í september er Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra sagði að peningum yrði ekki eytt í nýjar framkvæmdir árið 2023. Þá sagði hann einnig að tímalína nýrrar þjóðarhallar yrði stærri, það er að segja lengri, en áður var gert ráð fyrir.
Eins og staðan er núna liggur kostnaðarskipting fyrir þjóðarhöllina ekki fyrir. Það er því ekki endanlega ljóst hvort að af byggingu íslenskrar þjóðarhallar verði – en íþróttaaðdáendur bíða í ofvæni eftir nýrri höll.
Frétt um málið á heimasíðu ríkisútvarpi Færeyja, Kringvarpinu:
Heimild: þjó