Liz Truss, nýr forsætisráðherra Bretlands, kynnti í vikunni áform ríkisstjórnar sinnar um að verja 150 milljörðum punda í að tryggja að ekkert heimili greiði meira en 2.500 pund á ári í orkureikninga. Það samsvarar um 400.000 íslenskum krónum.
Hún sagðist einnig ætla að heimila frekari olíuleit og -borun auk þess að aflétta banni við að vinna gas með bergbroti.
Að mati bresku hugveitunnar Institute for Government munu þessar aðgerðir sennilega virka til skamms tíma, þótt þær gangi í bága við loftslagsmarkmið ríkisstjórnarinnar og gangi hvergi nærri nógu langt til að tryggja að orkuverð haldist álíka lágt og það var fyrir krísuna. Til samanburðar var verðþak á orku rétt ríflega þúsund pund veturinn 2021 til 2022.
Hugveitan telur brýnt að Bretlandsstjórn tryggi að bresk hús séu nægilega vel einangruð. Í skýrslu er vitnað í rannsókn frá árinu 2020 þar sem í ljós kom að bresk hús haldast síður hlý en hús í öðrum löndum Evrópu.
Ef hiti innandyra er tuttugu stig og utandyra við frostmark kólnar í bresku húsi um þrjú stig á fimm klukkustundum, einungis um eitt stig í til dæmis Þýskalandi, segir í skýrslunni.
Heimild: Ruv.is